Flugfélagið Play lýsir yfir sárum vonbrigðum með ályktun miðstjórnar Alþýðusambandsins þar sem landsmenn eru hvattir til þess að sniðganga flugfélagið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu, sem Birgir Jónsson forstjóri skrifar undir.
Hann hvetur ASÍ til að draga ásakanir til baka, en að öðrum kosti muni félagið leita réttar síns til að bæta þann skaða sem „aðför ASÍ“ að félaginu hafi valdið.
Miðstjórn Alþýðusambandsins sendi fyrr í dag frá sér ályktun þar sem hvatt er til sniðgöngu á þeim forsendum að Play undirbjóði laun starfsfólks til þess að geta haldið fargjöldum lágum. Bent var á það að lægstu grunnlaun flugfreyja, samkvæmt kjarasamningi Play við Íslenska flugstéttarfélagið, næmu 266.500 krónum eða rúmum 40 þúsund krónum minna en grunnatvinnuleysisbætur.
Í yfirlýsingu Play er bent á að fastar mánaðarlegar tekjur flugfreyja séu þó ekki svo lágar, en vegna vaktavinnu eru fastar mánaðarlegar tekjur flugfreyja félagsins á bilinu 351.851 til 454.351 króna á mánuði, að því er segir í yfirlýsingunni. Ofan á það leggjast flugstundargreiðslur, sölulaun og dagpeningar og segir félagið að flugfreyjur geti vænst meðaltekna í kringum 500 þúsund krónur.
Eftir stendur þó að vinnuskylda flugfreyja félagsins er meiri en hjá flugfreyjum Icelandair og launin lægri.
Í yfirlýsingu Play segir að ljóst megi vera að fyrir Alþýðusambandinu vaki ekki annað en að gæta hagsmuna Flugfreyjufélagsins, sem er eitt aðildarfélag ASÍ, en því tilheyra flugfreyjur sem starfa hjá Icelandair.
Segir enn fremur að Play hafi verið reiðubúið að upplýsa ASÍ um kjarasamninga sína við Íslenska flugstéttafélagið og funda með ASÍ. Hins vegar hafi ASÍ hafnað öllum fundum með Play nema fulltrúar Flugfreyjufélagsins fengju að sitja þá, nokkuð sem flugfélagið gat ekki sætt sig við.