„Verði þeim að góðu að fara í mál við okkur“

Drífa Snædal, forseti ASÍ
Drífa Snædal, forseti ASÍ Ljósmynd/Aðsend

Alþýðusamband Íslands ætlar ekki að draga yfirlýsingar sínar um flugfélagið Play til baka eftir að flugfélagið sakaði sambandið um áróður og hótaði því lögsókn.

Miðstjórn ASÍ hvatti landsmenn í gær til að sniðganga flugfélagið Play sökum lélegra starfskjara starfsfólks fyrirtækisins, þá sérstaklega flugfreyja og flugþjóna. Birgir Jónsson, forstjóri Play, birti í gær yfirlýsingu í kjölfarið þar sem hann lýsti yfir vonbrigðum sínum með ASÍ og óskaði þess að Alþýðusambandið myndi draga ásakanirnar til baka.

Í yfirlýsingu Play var ASÍ einnig sagt fara með rangt mál hvað varðar launakjör flugliða og er þar tekið fram að fastar mánaðarlegar tekjur séu lægstar 351.851 krónur en ekki 266.500 krónur eins og ASÍ hélt fram.

Tekur fyrirtækið jafnframt fram að lægstu föstu laun flugþjóna og flugfreyja Icelandair séu í kringum 307.000.

mbl.is/Hjörtur

Taka málsókn fagnandi og segjast ekki fara með rangt mál

„Verði þeim að góðu að fara í mál við okkur. Það er sjálfsagt mál því þá fer þetta allt upp á yfirborðið,“ sagði Drífa Snædal, forseti ASÍ, í viðtali við mbl.is.

Spurð hvers vegna Play héldi því fram að ASÍ væri að fara rangt með launakjör segir Drífa flugfélagið vera að rugla í umræðunni.

„Þeir tala um sölulaunin og bifreiðastyrkinn og allt það og segja það vera föst mánaðarlaun og bera það svo saman við strípuð mánaðarlaun hjá Icelandair. En Icelandair er náttúrulega líka með sölulaun og bifreiðastyrk og allt það.“

Segir Drífa þá jafnframt ASÍ einfaldlega vera að vitna í þá samninga sem Play hefur gert þegar þau fjalla um laun fyrirtækisins.

„Þetta stendur bara í samningnum, það er bara þannig.“

Ekki of harkalegt að hvetja almenning til að sniðganga Play

Drífa telur það ekki of langt gengið að hvetja fólk til að sniðganga Play þrátt fyrir viðkvæmt ástand í atvinnulífinu og þá sérstaklega með tilliti til ferðaþjónustunnar.

„Þeir eru að koma sér sjálfir í þessa stöðu þannig að ábyrgðin er öll þeirra að vera með eitthvað svona rugl og halda að það gangi í þessu ástandi. Þeir hefðu alveg mátt vita það að við myndum bregðast harkalega við, því að svona gengur ekki á íslenskum vinnumarkaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK