Skatttekjur og tryggingagjöld ríkins hækkuðu um ríflega 9% á fyrsta ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra. Á sama tíma jukust útjöld ríkissjóðs um 20%. Þetta kom fram í tilkynningu um ársfjórðungsuppgjör ríkissjóðs sem var birt á vef Stjórnarráðsins nú í dag.
Í tilkynningu Stjórnarráðsins segir þá aukningu tekna og gjalda sem finna má í uppgjörinu mega að stórum hluta rekja til frestunar skattgreiðslna og annara aðgerða sem gripið var til vegna kórónuveirufaraldursins.
Rekstrarafkoma tímabilsins var neikvæð um rúman 51 milljarð króna en tekjuskattur á einstaklinga hækkaði um 17,5 milljarða sem er um 41% hækkun miðað við fyrsta ársfjórðung 2020. Fjárfestingar hækkuðu úr 4,2 milljörðum upp í 6,7 og handbært fé ríkisins stóð í rúmum 497 milljörðum króna í lok mars.