Lágmarkslaun lægsta taxta flugliða flugfélagsins PLAY eru um 350 þúsund krónur, án vinnuframlags og aukagreiðslna, ekki 260.000 krónur eins og Alþýðusamband Íslands hefur haldið fram. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Play.
Þar segir jafnframt að heildartekjur nýráðinna séu um 500 þúsund krónur í meðalmánuði og að fyrir reyndan starfsmann gætu föst laun verið allt að 450 þúsund krónur án vinnuframlags.
„Félagið lauk nýverið hlutafjárútboði þar sem breiður hópur fagfjárfesta fjárfesti fyrir um 6 milljarða króna í félaginu. Þessi fjárfesting var gerð í kjölfarið á faglegri áreiðanleikakönnun þar sem öll aðalatriði rekstursins voru könnuð gaumgæfilega eins og vera ber í svona stórum verkefnum. Þar með talið voru kjarasamningar enda var það algjörlega skýrt af hálfu allra þessara aðila að þau mál þyrftu að vera fullkomlega í takt við lög og reglur. Þessi atriði voru því sérstaklega rannsökuð af sérfræðingum í kjaramálum,“ segir í yfirlýsingunni í Morgunblaðinu í dag.
Þar kemur fram að kjarasamningurinn sem Íslenska flugstéttafélagið hafi upprunalega gert við PLAY hafi vegna lífskjarasamninga tekið breytingum í kjölfar fyrrnefndrar vinnu.