Um 800 lántakar hafa skráð sig á heimasíðu Neytendasamtakanna vegna vaxtamálsins en samkvæmt Breka Karlssyni, formanni Neytendasamtakanna, er þetta langstærsta hópaðgerð sem samtökin hafa staðið fyrir á seinni tímum.
Í síðustu viku tilkynntu Neytendasamtökin að þau ætla sér að fara í mál við viðskiptabankana þrjá í ljósi þess að samtökin telja framkvæmd og skilmála lána með breytilegum vöxtum stangast á við lög. Opnuðu þá Neytendasamtökin fyrir heimasíðu sem gerði lántökum með breytilegt lán kleift að skrá þátttöku sína í málsókninni.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir skráninguna ganga mjög vel í samtali við blaðamann mbl.is og vonast hann eftir því að enn fleiri taki þátt.
„Við erum ótrúlega ánægð með viðtökurnar sem við erum að fá hjá almenningi og lántökum. [...] Það má kannski segja að Neytendasamtökin hafi á sínum ferli farið í svona hópaðgerðir en þetta er klárlega ein sú stærsta eða langstærsta á seinni tímum.“
Breki hvetur lántaka til að drífa sig að skrá sig en Neytendasamtökin fara bráðlega að velja úr þeim lánum sem munu taka þátt í málsókninni. Hann bendir þó á að einstaklingar muni áfram geta skráð sig á síðunni, og á það við um lántaka hjá viðskiptabönkunum sem og öðrum lánastofnunum.
„Ef þú ert með lán með breytilegum vöxtum þá eru miklar líkur á að þeir séu með þessum ólöglegu skilmálum.“
Samkvæmt Breka hefur Arion banki brugðist við með því að senda tölvupóst þar sem þeir bjóða lántökum upp á endurfjármögnun þeim að kostnaðarlausu. Breki segir að einstaklingar þurfi að hafa varann á áður en þeir skrifi undir slíkt en hann getur þó ekki ráðlagt fólki að endurfjármagna ekki. Hvetur hann þá einstaklinga að hafa samband við Neytendasamtökin til að ráðfæra sig áður en þeir endurfjármagni.