Scandinavian airlines (SAS) fjölga nú ferðum í takt við aukna eftirspurn. Flogið verður beint til 12 áfangastaða á ný frá Kaupmannahöfn. Er Ísland þar á meðal en flug hingað mun hefjast 14. júní.
SAS hefur lagt áherslu á að hefja flug til vinsælla ferðamannastaða og staða sem fjöldi Dana hefur tengsl við eða búsetu. Þetta kemur fram á vef dfly.no.
Í ljósi þess að bólusetningum vegna Covid miðar hratt áfram og smitum fækkar samhliða því eru sífellt fleiri lönd sem opna fyrir landamæri sín og bjóða ferðamenn velkomna í sumar. Þessi lönd eru flest farin að slaka á innlendum takmörkunum en þó með mismunandi hætti. Þar að auki krefjast þau ýmissa ólíkra vottorða til staðfestingar á því að ferðamaðurinn búi yfir mótefni.
Til þess að létta undir með ferðamönnum býður SAS nú upp á rafræna þjónustu undir nafninu „SAS Travel Ready Center“. Með henni geta ferðamenn nálgast upplýsingar um hvers kyns takmarkanir eru í gildi á fyrirhuguðum áfangastað sínum og hvers kyns vottorða er krafist þar.
Farþegum SAS er einnig bent á að nýta sér þjónustu SAS Travel Ready til að forðast öngþveiti flughafnanna með því að innrita sig heima og hlaða upp gögnum og viðeigandi vottorðum fyrirfram sem hljóta þá staðfestingu rafrænt.