Hagar hafa keypt helmingshlut í Djús ehf. sem á og rekur veitingastaðina Lemon. Undir merkjum félagsins eru reknir sjö staðir, þrír á höfuðborgarsvæðinu og fjórir á Norðurlandi undir nytjaleyfi. Samhliða kaupunum áforma Hagar að opna veitingastaði undir merkjum Lemon á þjónustustöðvum Olís og skoða með sölu á vörum frá Lemon í verslunum Haga.
Í tilkynningu vegna kaupanna er haft eftir Finni Oddssyni, forstjóra Haga, að hann sé spenntur fyrir kaupunum. Horft sé til breyttrar neysluhegðunar viðskiptavina með auknum áhuga á hollari valkostum. „Á næstu mánuðum stefnum við að því að opna veitingastaði Lemon á þjónustustöðvum Olís og kanna samhliða möguleika á sölu vara frá Lemon í verslunum Haga,“ er haft eftir honum.
Haft er eftir Jóhönnu Soffíu Birgisdóttur, framkvæmdastjóra Lemon, að með aðkomu Haga sé félagið vel í stakk búið til að fjölga veitingastöðum undir merkjum félagsins.
Í ársreikningi fyrir árið 2019 kemur fram að velta félagsins hafi verið 340 milljónir það ár og ársverk hafi verið 22. Hluthafar Djúss ehf eru félögin Spicy ehf. með rúmlega 68%, Foss fjármál ehf. með 24% og Málaraverktakar ehf. með tæplega 8%. Eigendur Spicy eru Sveinberg Gíslason, Jóhanna Soffía Birgisdóttir og Unnur Guðríður Indriðadóttir. Eigandi Foss fjármála er Snorri Arnar Viðarsson og eigandi Málaraverktaka er einnig fyrrnefndur Sveinberg.