Faxaflóahafnir fóru ekki varhluta af tekjusamdrætti í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldursins sem nú hefur staðið í á annað ár. Tekjur fyrirtækisins af skemmtiferðaskipum voru til dæmis nærri 800 milljónir árið 2019. Þegar faraldurinn skall á hurfu tekjurnar eins og dögg fyrir sólu, enda lögðust ferðalög af um allan heim.
Magnús Þór Ásmundsson hafnarstjóri Faxaflóahafna segir í ítarlegu samtali við ViðskiptaMoggann að í fjárhagsáætlun fyrir árið í ár hafi ekki verið forsendur til annars en að miða við svipað ár og var 2020. „Við förum inn í 2021 með bullandi Covid í gangi, en nú eru blikur á lofti. Við höfum orðið vör við mjög mikinn áhuga ferðaþjónustuaðila á að koma til landsins. Við getum sagt að það sé vel bókað hjá okkur, en það er líka talsvert um afbókanir með stuttum fyrirvara. Við erum einnig að sjá nýjar bókanir sem detta inn frá miðju sumri, í júlí, ágúst og september. Við munum sjá farþegaskip í sumar.“
Spurður að því hvers konar skip séu væntanleg segir Magnús að þróunin sé meira í átt að skipum sem stundi svokölluð farþegaskipti þar sem flogið er með farþega til landsins. Þeir fari svo um borð í strandsiglingaskip eða skip sem sigla á Norður-Atlantshafi. „Þetta er í raun mjög jákvæð þróun. Þessi tegund ferðamennsku skapar líka aukin tækifæri fyrir ferðaþjónustuna í heild, fyrir flugið, hótelin, veitingahúsin og aðra.“
Lestu ítarlegt viðtal við Magnús í ViðskiptaMogganum í dag.