Björn Leifsson, stofnandi World Class, áætlar að það muni taka tvö ár að ná upp sömu aðsókn og fyrir faraldurinn. Tekjumissir fyrirtækisins vegna samkomutakmarkana í fyrra sé 2,4 milljarðar króna.
„Við þurftum að hafa lokað í samtals sjö mánuði í fyrra. Til að brúa bilið tókum við 1.200 milljóna króna lán sem mun taka tíma að greiða niður,“ segir Björn.
Spurður um lokunarstyrki segir Björn fyrirtækið hafa fengið um 120 milljónir í slíka styrki frá ríkinu.
„Það dugir ekki fyrir launum hjá okkur í einum mánuði. Lokunarstyrkir koma sér mjög vel fyrir minni fyrirtæki, á borð við hárgreiðslustofur og snyrtistofur, og þótt þetta séu vissulega miklir peningar breyta þeir litlu fyrir stærri fyrirtæki,“ segir Björn.
World Class og Reebok Fitness hafa alls á þriðja tug stöðva og eru stærstu keðjurnar á markaðnum.
Guðmundur Ágúst Pétursson, forstjóri Reebok Fitness, segir fyrirtækið hafa tapað um 200 milljónum króna í kórónuveirufaraldrinum í fyrra. Jafnframt hafi mikið gengið á eigin fé félagsins sem var um 170 milljónir þegar samkomutakmarkanir hófust í mars í fyrra.
„Reksturinn varð fyrir þungu höggi í fyrra. Mikið gekk á eigið fé sem tók fimm ár að safna. Við það bætast 40 milljóna króna lán frá ríkinu, sem þarf að endurgreiða, og lokunarstyrkir sem gerðu okkur kleift að fljóta með nefið upp úr vatninu. Svo hófst þetta ár og við vorum að opna og loka á víxl og fengum einn lokunarstyrk til viðbótar fyrir hluta af lokunum,“ segir Guðmundur. Samkomutakmarkanir eru nú að miklu leyti gengnar til baka. Með því getur starfsemi líkamsræktarstöðva komist í fyrra horf.
Fyrir faraldurinn voru um 10 þúsund manns í áskrift hjá Reebok Fitness og hefur þeim fækkað um rúm 30%. Varðandi framhaldið segir Guðmundur það munu taka tíma að ná upp sama fjölda viðskiptavina.
„Það er hætt við að kúnninn sem hættir í ræktinni detti jafnvel út. Það getur verið erfitt að koma honum af stað aftur og þá er hættan sú að hann lendi á heilbrigðiskerfinu. Geðheilsan og svo margt verður fyrir áhrifum ef menn hætta að stunda líkamsrækt,“ segir Guðmundur.