Fengu nýtt vopn í hendurnar

Tífalda þarf skógrækt í landinu ef markmið um kolefnishlutleysi landsins …
Tífalda þarf skógrækt í landinu ef markmið um kolefnishlutleysi landsins árið 2040 á að nást. mbl.is/RAX

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri umhverfisstjórnunarfyrirtækisins Klappa grænna lausna, segir að með dómi hollensks dómstóls fyrr í vikunni, þar sem olíufyrirtækið Shell var dæmt til minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda um 45% fyrir árið 2035, miðað við útblásturinn 2019, hafi almenningur og umhverfisverndarsamtök fengið nýtt vopn í hendurnar. „Í staðinn fyrir að standa úti á götu og mótmæla í vanmætti hef ég trú á að dómskerfið verði notað í miklu ríkari mæli í framtíðinni til að þrýsta á um aðgerðir í loftslagsmálum,“ segir Jón Ágúst.

Málið er kallað „Fólkið gegn Shell“ og var rekið af 17 umhverfisverndarhópum og sautján þúsund almennum borgurum.

Jón segir dóminn algjöran tímamótaúrskurð. „Það má búast við að svipuðum málum fjölgi mjög hratt á komandi árum. Þetta snýr bæði að fyrirtækjum eins og Shell sem vinna jarðefnaeldsneyti en einnig fyrirtækjum sem nota slíkt eldsneyti og þá ekki síður að stjórnvöldum og þjóðríkjum sem hafa samþykkt Parísarsamkomulagið um minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Þau munu þurfa að standa skil á þeim árangri sem þau hafa lofað.“

Allan mælanleika vantar

Jón segir að heimurinn sé í dag tiltölulega vanbúinn að svara til um hvernig gangi að uppfylla markmið um útblástur gróðurhúsalofttegunda. Allan mælanleika vanti. „Það sem er algjörlega einstakt við Ísland er að um 400 fyrirtæki og sveitarfélög tengjast vistkerfi Klappa þar sem skráning umhverfismála fer fram miðlægt í gegnum eitt kerfi sem byggist á sautjánda heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna. Þannig getum við auðveldlega fylgst með og áttað okkur á hvernig gengur hjá aðilum tengdum vistkerfinu. Þessir aðilar í vistkerfinu hafa náð 16% samdrætti í heildarlosun og 21% samdrætti í hlutfalli af tekjum frá árinu 2015.“

Kostnaður mun hækka mikið

Jón segir að kostnaður fyrirtækja, sveitarfélaga og þjóðríkja við kaup á losunarheimildum muni hækka mikið næstu tíu árin. Því sé það allra hagur að ná tökum á útblæstrinum og draga verulega úr honum. „Við erum komin á krítískan punkt varðandi loftslagið.“

Þó að 400 fyrirtæki séu komin inn í kerfi Klappa og skrái þar umhverfismál starfseminnar er enn langt í land að sögn Jóns. „Við þurfum að ná 60-70% fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisstofnana inn í kerfið til að sjá með gögnum hvernig Íslandi gengur sem heild á hverjum tíma.“

Jón Ágúst Þorsteinsson forstjóri Klappa.
Jón Ágúst Þorsteinsson forstjóri Klappa. mbl.is/Árni Sæberg

Jón segir að Klappir séu byrjaðar að breiða tækni sína út til nágrannalandanna. Byrjað sé að byggja upp vistkerfi í Danmörku sambærilegt því sem byggt hefur verið upp á Íslandi. Nú þegar eru þekkt dönsk stórfyrirtæki komin í viðskipti og unnið er að tengingu kerfa Klappa við innviði í landinu, eins og sorphirðu-, eldsneytis-, hitaveitu- og rafmagnsfyrirtæki. „Ísland hefur ákveðið leitogahlutverk í umhverfisstjórnuninni. Okkar árangur við að byggja upp vistkerfi í samstarfi fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkis er til eftirbreytni og við getum miðlað því til annarra þjóða. Á eftir Danmörku munum við halda innreið okkar inn á hin norrænu löndin.“

Jón segir að Ísland geti skapað fjölda starfa í kringum þennan iðnað.

50% möguleikar

Um stöðuna í loftslagsmálum heimsins segir Jón að staða koldíoxíðs í andrúmsloftinu á heimsvísu sé í dag 412 pbm en var árið 1988 350 pbm. „Ef þessi tala fer í 450 þá eigum við 50% möguleika á að stoppa hlýnun jarðar í tveimur gráðum, eins og markmið Parísarsamkomulagsins segir til um. Það er þó talið að kostnaðurinn vegna loftslagsbreytinga verði svo mikill að við munum eiga erfitt með að stoppa á þeim tímapunkti. Þess má geta að ef gildið fer í 700 verður ólíft á jörðinni. Ástandið er nú þegar orðið mjög alvarlegt því það er ekkert farið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og loftslagsbreytingar eru farnar að valda breytingum á hafinu og veðurfari almennt.“

Jón segir að hver og einn verði að horfa í eigin barm og skoða sína losun. Neysla einstaklinga sé það sem á endanum stýri árangrinum í málaflokknum.

Um losun Íslands segir Jón að landið losi mjög mikið miðað við höfðatölu. Mikið verk sé fram undan í skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis eigi að nást kolefnishlutleysi hér á landi árið 2040 eins og stefnt sé að.

Átak í skógrækt

Hann segir að losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi sé tæplega 14 mtCO2ígildi en þar af er losun frá landi um 9 mtCO2ígildi og önnur losun um 5 mt CO2ígildi. Til að ná kolefnishlutleysi 2040 þurfi stórfellt átak á komandi árum bæði í landbótum, bindingu og samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Engan tíma megi missa í þeim efnum og fara þurfi í stórfellt skógræktarátak til að markmiðið náist. „Skógræktaráætlun gerir ráð fyrir 500 þúsund tonna bindingu fyrir árið 2040 en í raun þurfum við að tífalda það magn þannig að bindingin verði fimm milljónir tonna árið 2040. Gróðursetja þarf þessi tré fyrir árið 2025 því það tekur fimmtán ár fyrir trén að ná að binda almennilega koltvísýring. Það þarf að fjárfesta í skógrækt fyrir tíu milljarða króna fyrir 2025 ef þetta á að nást.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka