Hilmar Harðarson, stjórnarmaður í Lífeyrissjóðnum Birtu, var kjörinn formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða að loknum aðalfundi samtakanna í gær. Þetta kemur fram á vef Landssamtaka lífeyrissjóða. Hilmar tekur við að Guðrúnu Hafsteinsdóttur hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að árið 2019 hafi verið mjög gott ávöxtunarár eigna íslenskra lífeyrissjóða. Þá hafði Covid-19 ekki eins mikil áhrif á ávöxtunina árið 2020 líkt og haldið var, einkum vegna góðrar ávöxtunar erlendra eigna. Innlendar eignir skiluðu líka góðri ávöxtun.
Ávöxtun lífeyrissjóða landsmanna var 9,4% að jafnaði á árinu 2020 og eignir sjóðanna í lok ársins 2020 voru 5.715 milljarðar eða sem svarar til tvöfaldrar landsframleiðslu.