Útboð á rúmlega 636 milljón hlutum af hlutafé ríkissjóðs í Íslandsbanka hófst í dag og stendur til 15. júní. Til viðbótar munu söluráðgjafar úthluta 10% af útboðsmagninu ef umfram eftirspurn verður í útboðinu. Þeir hlutir sem verða boðnir út nema þannig að hámarki 35% af heildarhlutafé bankans.
Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins.
Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhluti ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum, og Íslandsbanki hf. birtu í dag lýsingu og tilkynntu stærð útboðsins og leiðbeinandi verðbil þess. Það er á bilinu 71-79 krónur á útboðshlut sem leiðir til að áætlað markaðsvirði Íslandsbanka í kjölfar útboðsins er um 150 milljarðar króna. Í síðasta ríkisreikningi er bókfært virði bankans 142 milljarðar. Venja er í útboðum sem þessum að birta verðbil í frumútboði, segir ennfremur.
Almenningi býðst þátttaka í útboðinu, en tekið verður við áskriftum allt niður í 50 þúsund krónur. Skv. ákvörðun ráðherra, að höfðu samráði við Alþingi, er stefnt að því að áskriftir almennings allt að einni milljón króna verði ekki skertar.
Enn fremur taka svonefndir hornsteinsfjárfestar þátt í útboðinu, en þar eru annars vegar íslenskir lífeyrissjóðir og hins vegar traustir og reynslumiklir erlendir aðilar, að því er segir í tilkynningunni.