Fyrsta skóflustunga að nýrri verksmiðju Algalífs var tekin á föstudaginn 4. júní. Áætlaður kostnaður við byggingu verksmiðjunnar er um 4 milljarðar króna. Talið er að um eitt hundrað störf myndist á framkvæmdatíma verksmiðjunnar og að varanleg störf verði um 80 eftir stækkunina.
Algalíf er stærsta örþörungafyrirtæki á Íslandi og eitt af þeim stærstu í Evrópu. Eftir stækkunina verður fyrirtækið stærsti framleiðandi heims á astaxanthíni, þetta kemur fram í tilkynningu Algalífs.
Astaxanthíni er notað í fæðubótaefni og snyrtivörur um allan heim. Fyrirtækið áætlar að með byggingu nýju verksmiðjunnar fari ársframleiðslan úr rúmum 1,5 tonni af astaxanthíni í rúm 5 tonn. Mun því framleiðslugeta nýju verksmiðjunnar rúmlega þrefaldast.
Fyrirtækið leggur mikla áherslu á umhverfisvæna framleiðslu og er ekkert jarðefnaeldsneyti notað við framleiðsluna. Algalíf áætlar að binding á koltvísýringi fari úr um 80 tonnum á ári í 250 tonn eftir stækkunina og ef þetta stendur verður kolefnisfótspor fyrirtækisins neikvætt.
Fyrirtækið var stofnað árið 2012 og er í eigu norskra fjárfesta. Um 40 manns starfa hjá fyrirtækinu og er ársveltan um 1,5 milljarðar króna.