Íslenska hugbúnaðarhúsið Gangverk hefur á síðustu árum sinnt risaverkefnum fyrir fyrirtæki á borð við fjömiðlasamsteypuna CBS í Bandaríkjunum, Sotheby's, sem er stærsta uppboðshús heims, og nú síðast lúxusferðaskrifstofuna Lindblad. Flest stefnir í að stór viðskiptavinur vestanhafs bætist í hópinn á komandi vikum. Mitt í viðskiptamannahópi Gangverks er svo Kvika banki sem leggur nú mikla áherslu á fjártæknilausnir framtíðarinnar.
Atli Þorbjörnsson stofnaði fyrirtækið árið 2010 og fer nú fyrir hópi ríflega 70 sérfræðinga sem allir starfa hér á landi. Verkefnið felist ekki síst í að koma rótgrónum og öflugum fyrirtækjum inn í 21. öldina og tengja þau betur við viðskiptavini. Árangurinn láti ekki á sér standa, m.a. hjá Sotheby's-uppboðshúsinu.
„Frá því við komum til samstarfs við uppboðshúsið árið 2016 hefur meðalaldur viðskiptamannahópsins lækkað um hartnær áratug,“ segir Atli. Margt hafi verið gert rétt í að laða starfsemi á borð við þá sem Gangverk sinnir til landsins. Alþjóðleg samkeppni sé hörð og enn þurfi að bæta umhverfið.
„Mér finnst óneitanlega sérstakt þegar atvinnuástandið er eins og það er, atvinnuleysi í sögulegu hámarki, að þá þekki maður mýmörg dæmi þess að óþarflega flókið og íþyngjandi regluverk og hæg stjórnsýsla sé að hamla stórum atvinnuskapandi verkefnum hér á landi,“ segir Atli.