Heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað mikið á síðustu fjórðungum og er nú komið í tíu ára hámark, en verðið hefur ekki verið jafn hátt síðan á sumarmánuðum 2011.
Álverð lækkaði töluvert á síðasta ári þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar braust út líkt og flestar aðrar hrávörur. Meðalverð í janúar á síðasta ári var 1.773 Bandaríkjadalir og lækkaði það niður í 1.460 dali í maí það ár. Svo lágt hafði verðið ekki farið síðan í fjármálakreppunni 2008/2009. Þá fór það niður í 1.330 dali í febrúar 2009.
Fram kemur í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans að síðan í maí á síðasta ári hafi álverð leitað upp á við og er yfir 2.400 dalir þessa dagana, ríflega þriðjungi hærra en verð í janúar á síðasta ári, þ.e. áður en faraldurinn braust út.