Samkeppniseftirlitið og Eimskip undirrituðu í dag sátt vegna rannsóknar á ætluðum brotum Eimskips og Samskipa á árunum 2008-2013. Með undirritun sáttarinnar er rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Eimskip lokið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.
Sáttin felur það í sér að Eimskip viðurkenni alvarleg brot á samkeppnislögum vegna víðtæks samráðs við keppinautinn Samskip, sem fólst einna helst í samráði um breytingar á siglingakerfum, takmörkun á flutningsgetu, samráði um álagningu gjalda og afsláttarkjara, samráði um sjóflutninga beggja vegna Atlantshafsins og loks samráði um landflutningaþjónustu á Íslandi. Þá er Eimskip gert að greiða 1,5 milljarða í stjórnvaldssekt sem rennur í ríkissjóð sem og að skuldbinda sig til þess að grípa til aðgerða sem vinna gegn því að brot endurtaki sig.
Með undirritun sáttarinnar er rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Eimskip lokið. Ætluð brot Samskipa eru hins vegar enn til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Samkeppniseftirlitið hefur haft ætluð brot Eimskips og Samskipa hf. (og tengdra félaga) gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins til rannsóknar í rúm ellefu ár eða frá því eftirlitinu barst fyrst ábendingar frá bæði viðskiptavinum og keppinautum fyrirtækjanna. Rannsóknin hófst með húsleit hjá fyrirtækjunum í september 2013 en önnur húsleit var svo framkvæmd í júní 2014. Rannsóknin tekur til háttsemi fyrirtækjanna á mörkuðum fyrir sjóflutninga, landflutninga, flutningsmiðlun og tengdrar þjónustu. Megin rannsóknartímabilið eru árin 2008 – 2013.
Árið 2019 höfðaði stjórn Eimskips almennt einkamál gegn Samkeppniseftirlitinu þar sem þess var krafist að rannsókn stofnunarinnar, sem þá hafði staðið yfir í um tíu ár, yrði dæmd ólögmæt og henni hætt.
Eimskip hafði áður lagt fram kröfu af sama meiði á grunni ákvæða laga um meðferð sakamála, en dómstólar féllust ekki á að unnt væri að reka málið gegn Samkeppniseftirlitinu á þeim lagagrundvelli. Í þeirri kröfu reisti Eimskip kröfur sínar m.a. á því að rannsóknin byggði á ólögmætri haldlagningu gagna og að brotið hafi verið gegn hlutlægnisskyldu Samkeppniseftirlitsins og réttindum Eimskips við rannsóknina.
Umfang rannsóknarinnar er án fordæma við rannsókn samkeppnismála hér á landi og hefur rannsóknin sætt forgangi hjá Samkeppniseftirlitinu frá byrjun, segir í tilkynningu frá eftirlitinu.