Eimskip viðurkennir alvarleg brot

Eimskip.
Eimskip. Ljósmynd/Eimskip

Samkeppniseftirlitið og Eimskip undirrituðu í dag sátt vegna rannsóknar á ætluðum brotum Eimskips og Samskipa á árunum 2008-2013. Með undirritun sáttarinnar er rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Eimskip lokið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Sáttin felur það í sér að Eimskip viðurkenni alvarleg brot á samkeppnislögum vegna víðtæks samráðs við keppinautinn Samskip, sem fólst einna helst í samráði um breytingar á siglingakerfum, takmörkun á flutningsgetu, samráði um álagningu gjalda og afsláttarkjara, samráði um sjóflutninga beggja vegna Atlantshafsins og loks samráði um landflutningaþjónustu á Íslandi. Þá er Eimskip gert að greiða 1,5 milljarða í stjórnvaldssekt sem rennur í ríkissjóð sem og að skuldbinda sig til þess að grípa til aðgerða sem vinna gegn því að brot endurtaki sig.

Með undirritun sáttarinnar er rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Eimskip lokið. Ætluð brot Samskipa eru hins vegar enn til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu. 

Ætluð brot til rannsóknar í rúman áratug

Samkeppniseftirlitið hefur haft ætluð brot Eimskips og Samskipa hf. (og tengdra félaga) gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins til rannsóknar í rúm ellefu ár eða frá því eftirlitinu barst fyrst ábendingar frá bæði viðskiptavinum og keppinautum fyrirtækjanna. Rannsóknin hófst með húsleit hjá fyrirtækjunum í september 2013 en önnur húsleit var svo framkvæmd í júní 2014. Rannsóknin tekur til háttsemi fyrirtækjanna á mörkuðum fyrir sjóflutninga, landflutninga, flutningsmiðlun og tengdrar þjónustu. Megin rannsóknartímabilið eru árin 2008 – 2013.

Eimskip höfðaði einkamál gegn Samkeppniseftirlitinu

Árið 2019 höfðaði stjórn Eimskips almennt einkamál gegn Samkeppniseftirlitinu þar sem þess var krafist að rannsókn stofnunarinnar, sem þá hafði staðið yfir í um tíu ár, yrði dæmd ólögmæt og henni hætt. 

Eim­skip hafði áður lagt fram kröfu af sama meiði á grunni ákvæða laga um meðferð saka­mála, en dóm­stól­ar féllust ekki á að unnt væri að reka málið gegn Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu á þeim laga­grund­velli. Í þeirri kröfu reisti Eim­skip kröf­ur sín­ar m.a. á því að rann­sókn­in byggði á ólög­mætri hald­lagn­ingu gagna og að brotið hafi verið gegn hlut­lægn­is­skyldu Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins og rétt­ind­um Eim­skips við rann­sókn­ina. 

Umfang rannsóknarinnar er án fordæma við rannsókn samkeppnismála hér á landi og hefur rannsóknin sætt forgangi hjá Samkeppniseftirlitinu frá byrjun, segir í tilkynningu frá eftirlitinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK