Jón Ingi Björnsson hefur verið ráðinn nýr sviðsstjóri nýs rekstrar- og þjónustusviðs hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Þekkingu. Fram kemur í tilkynningu að sviðið varð til við skipuritsbreytingar sem tóku gildi 1. júní er þjónustu-, rekstrar- og ráðgjafasvið hafa verið sameinuð í eitt svið. Undir sviðið heyrir þjónustuborð, vettvangsþjónusta, rekstrarþjónusta ásamt ráðgjöf og verkefnastýringu.
Þá segir að Jón Ingi „hefur sinnt starfi ráðgjafa hjá Þekkingu undanfarna mánuði og leitt fjölda umbótaverkefna. Áður gegndi Jón Ingi stöðu forstöðumanns tækniþjónustu hjá Íslandsbanka í 13 ár. Þá var Jón Ingi einn stofnenda Álits (síðar ANZA) en Álit var fyrst íslenskra fyrirtækja að bjóða úthýsta upplýsingatækniþjónustu. Þar áður starfaði hann sem rekstrarstjóri hjá ISAL. Jón Ingi er með BS-gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og BA-gráðu í sálfræði frá sama skóla.“
Þá mun Gunnar Ólafsson, sem leitt hefur sölu- og markaðssvið, leiða nýtt svið viðskiptaþróunar og undir það svið heyrir viðskiptastýring, sala, markaðsmál ásamt vörustýringu og vöruþróun. Undir fjármálasvið heyra fjármál, bókhald og mannauðsmál og verður sviðinu líkt og áður stýrt af Bjarna Áskelssyni.
„Með nýju skipuriti straumlínulögum við félagið, styttum boðleiðir, getum hreyfst hraðar og erum enn betur í stakk búin fyrir þá spennandi tíma sem fram undan eru í upplýsingatækni. Áfram leggjum við höfuðáherslu á framúrskarandi þjónustu, lausnir og trausta ráðgjöf. Samhliða þessu höfum við verið að stórauka áherslu okkar á öryggismál og bjóðum viðskiptavinum okkar upp á breitt úrval fyrsta flokks lausna og ráðgjöf í þeim efnum. Það er mikill fengur fyrir Þekkingu og viðskiptavini okkar að fá Jón Inga inn í framkvæmdastjórn félagsins. Þar verður hann mikilvægur liðsmaður og mun yfirgripsmikil þekking hans og reynsla nýtast vel,“ segir Stefán Jóhannesson, framkvæmdastjóri Þekkingar.