Flugfélagið Play fór í æfingaflug í gær, til Kaupmannahafnar, með nýju flugvélina. Fyrsta áætlunarflugið er svo á fimmtudaginn og þann sama dag verður fyrirtækið skráð á markað. Búningarnir vöktu gríðarlega athygli í Kaupmannahöfn. „Þegar áhöfnin hitti fyrsta Danann á flugstöðinni spurði hann hvort þetta væri í alvöru og svo bara hneigði hann sig,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Fyrsta flug flugfélagsins er á fimmtudag svo nú er verið að leggja lokahönd á þjálfun áhafnanna. Í æfingafluginu voru 90 starfsmenn Play en hópurinn samanstóð af flugliðum, flugfreyjum og flugmönnum.
Í Kaupmannahöfn er þjálfunarsetur þar sem þarf að fara fram vottun á öryggisbúnaði sem ekki er hægt að fá á Íslandi. Var því flogið út, lokið við þjálfun og allur búnaðurinn prufukeyrður áður en flogið var heim aftur, innan dagsins.
Áhöfn Play er að mestu leyti fólk sem starfaði áður hjá WOW air og býr því yfir ákveðinni grunnþjálfun og grunnvottun á þá tegund flugvélar sem Play hyggst nota. Þrátt fyrir það þarf að fara í gegnum ákveðið þjálfunarferli til þess að færa starfsfólkið yfir á flugrekstrarleyfi fyrirtækisins en þetta er allt liður í flóknu regluvirki fluggeirans.
Birgir Jónsson, forstjóri Play sagði að mikil stemming væri meðal starfsmanna sem sæju fram á mikla vinnu en margir höfðu ekki haft atvinnu í langan tíma.
Einkennisklæði áhafnar Play voru kynnt fyrir skömmu og hafa fengið mikla athygli fyrir að skera sig frá gömlum hefðum fluggeirans en þægindi eru þar í fyrirrúmi. Birgir sagði að fyrirtækið hafi ekki viljað frumsýna klæðin í innra flugi sem þessu.
Í staðinn klæddist áhöfnin rauðum búningum frá Henson sem voru sérstaklega hannaðir fyrir æfingaflugið. Talan 10 var svo prentuð á bakhliðina sem virðingarvottur við danska landsliðið og fótboltamanninn Christian Eriksen, sem hneig niður í leik liðsins á EM vegna hjartastopps.
Búningarnir vöktu gríðarlega athygli í Kaupmannahöfn. „Þegar áhöfnin hitti fyrsta Danann á flugstöðinni spurði hann hvort þetta væri í alvöru og svo bara hneigði hann sig,“ sagði Birgir.
Þegar mbl.is náði tali af Birgi stóð hann einmitt inni í nýju flugvélinni í fyrsta skipti, en hann fékk ekki að fara með í æfingaflugið. Hann sagði það skemmtilegt að vera farin að sjá fram á árangur mikillar vinnu en margir stórir hlutir væru að gerast nú á sama tíma.
Á fimmtudaginn verður fyrirtækið skráð á markað. „Við fórum í hlutafjáraukningu í byrjun apríl þar sem söfnuðust 6 milljarðar. Það lá alltaf fyrir að næsta skref yrði að fara inn á markað,“ sagði Birgir.
Hann benti á að meðal þeirra 60 fjárfesta sem komu að hlutafjárútboðinu væru lífeyrissjóðir og stofnfjárfestar sem vilji fjárfesta í skráðum bréfum. „Þetta er tvískipt, tvær bækur, fimmtudag og föstudag. Annars vegar fyrir almenning og hins vegar fyrir fagfjárfesta,“ sagði hann svo.
Birgir kvaðst finna fyrir miklum áhuga fólks sem sýni traust og trú almennings á verkefninu. Einnig séu margir spenntir fyrir tækifæri til að taka þátt í upprisu íslenskrar ferðaþjónustu sem hann telur að muni rísa mjög hratt, en Kauphöllin býður ekki upp á mörg fyrirtæki úr ferðamannaiðnaðinum.
„Hér komum við með félag sem er með 10 milljarða í eigið fé og engar skuldir eftir útboðið,“ sagði Birgir og bætti við að Play væri gríðarlega sterkt fyrirtæki sem væri grundvöllur þess að geta byggt sig hratt upp á næstu árum.
Ekki er fullbókað í fyrsta flugið hjá Play. Birgir sagði að fyrstu flugin í júlí væru ekki mjög þétt setin. Fólk er nú að klára bólusetningar og sjá má merkilegan mun á bókunarstöðunni frá og með seinnihluta júlí. „Þetta byrjar rólega hjá okkur og áætlanirnar byrja rólega. Við byrjum bara með eina flugvél, svo kemur önnur eftir tvær vikur og næsta þá þremur vikum eftir það.“
Birgir segir að Íslendingar séu í meirihluta í bókunum til sólarlanda en svo séu erlendir ferðamenn mjög áberandi í flugum til Íslands frá stöðum á borð við París og Berlín. „Íslensk ferðaþjónusta mun nú á næstu vikum taka eftir því að við séum byrjuð, en það er aðalmálið fyrir okkur öll að reisa við ferðaþjónustuna og efnahaginn, sama hvað flugfélagið heitir,“ segir hann svo.