„Þetta er bara eins og margt annað, það er bara að taka fyrsta skrefið þar sem maður getur aldrei vitað hvort þú fellur fram af brúninni eða ekki, en maður verður bara að leggja af stað,“ segir Bragi Hinrik Magnússon, annar hóteleigandi Hótel Hrauns sem opnaði 17. júní.
Hótelið er staðsett við Reykjavíkurveg 72 í Hafnarfirði og eru það þeir Bragi Hinrik Magnússon og Þór Bæring Ólafsson sem eiga og reka hótelið en þeir hafa starfað við ferðaþjónustu í yfir 20 ár.
„Við erum svolítið að veðja á að þetta komist í lag, að það komi ekki fleiri áföll í bransann, einhver stopp í flugfélögum og þess háttar. Ef hlutirnir ganga eðlilega fyrir sig næstu árin þá ætti veðmálið okkar að standast.“
Á hótelinu er 71 herbergi af ýmsum stærðum og gerðum en öll herbergin eru með baðherbergi. Þá segir í tilkynningu að hótelið sé tilvalið gistirými fyrir íslenska ferðalanga og starfsmenn fyrirtækja, enda í þægilegri akstursleið til allra átta. Á hótelinu er einnig stór morgunverðarsalur og að auki veislusalur sem mun standa til leigu bæði fyrir mannfagnaði og fundi.
„Það var hótel hérna áður sem er búið að standa tómt núna í Covid og síðan þegar túrisminn fór að taka við sér aftur ákváðum við að gá hvort að það væri ekki tækifæri í því að taka við rekstrinum á þessu hóteli, svo við dembdum okkur í það,“ segir Bragi.
Hann segir að hótelið sé þriggja stjörnu með fimm stjörnu þjónustu. „Út þetta ár erum við að keyra á mjög góðum verðum, í rauninni kynningarverðum, svo það er erfitt að finna ódýrari díla annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.“
Þá bendir hann á að flestir sem stoppi séu að koma utan af landi fyrir helgarfrí í bænum og vilja ekkert endilega vera í miðbæ Reykjavíkur. Svo sé mikið af túristum á bílaleigubílum sem séu til í að borga helmingi minna fyrir að gista 10 mínútur frá miðbænum.
„Við erum duglegir að kynna Hafnarfjörð, það er mikið að sjá hér í kring, bærinn er náttúrulega byggður á hrauni og þess vegna heitir þetta Hótel Hraun,“ segir Bragi. „Það eru alls konar hjólaleiðir, skemmtilegar gönguleiðir, notalegur miðbær og hér er gott að vera.“
Eitt af yfirlýstum markmiðum þeirra sé að fá fólk til þess að kíkja á bæinn.
„Hér í Hafnarfirði og á svæðinu í kring eru miklir möguleikar þessu tengdir og þetta verkefni gæti verið eitt skref í þá átt að auka fjölbreytni í atvinnulífinu hér.“