Eigendur breytanlegra skuldabréfa Alvotech hafa ákveðið að nýta rétt sinn til að breyta skuldabréfum að fjárhæð 106 milljónir bandaríkjadala, því sem jafngildir um 13 milljörðum króna, í hlutafé á gengi sem verðmetur Alvotech á um 300 milljarða íslenskra króna.
Alvotech gaf út breytanleg skuldabréf fyrir 300 milljónir dala, 36 milljarða króna á þáverandi gengi, í lok árs 2018. Eigendur skuldabréfanna höfðu rétt til að breyta skuldabréfum í hlutafé og nú hafa eigendur eins fjórða af virði bréfanna ákveðið að nýta sér þann rétt sinn.
Fram kemur í tilkynningu frá Alvotech að alþjóðlegi fjárfestingarbankinn Morgan Stanley og fyrirtækjaráðgjöf Arion banka voru umsjónaraðilar viðskiptanna og höfðu milligöngu um aðkomu erlendra fagfjárfesta.