Áttföld eftirspurn í hlutafjárútboði Play

Þota Play í flugtaki.
Þota Play í flugtaki. mbl.is/Unnur Karen

Alls bárust um 4.600 áskriftir í hlutafjárútboði flugfélagsins Play, sem lauk klukkan 16 í dag. Áskriftirnar hljóða samtals upp á 33,8 milljarða króna.

Markmið félagsins var að safna fjórum milljörðum króna með hlutafjárútboðinu. Því er ljóst að spurn eftir bréfum í félaginu var nærri áttföld á við það sem óskað var eftir.

Tvær tilboðsbækur voru í boði og voru ólík­ar hvað varðar stærð áskrifta og út­hlut­un. Verð í áskrift­ar­leið A nam 18 krónum á ​hlut og verð í áskrift­ar­leið B var inn­an verðbils­ins 18-20 krónur á hlut.

Mun yfirfara áskriftirnar

Áskriftir bárust fyrir 6,7 milljarða í gegnum áskriftarleið A og rúma 27 milljarða í gegnum áskriftarleið B. Endanlegt verð í þeirri tilboðsbók var 20 krónur á hlut.

Stjórn Play mun nú yfirfara þær áskriftir sem bárust í útboðinu og taka afstöðu til þeirra. Áætlað er að niðurstaða varðandi úthlutun liggi fyrir eigi síðar en í lok dags 28. júní, að því er segir í tilkynningu á vef Arctica Finance.

Upplýsingar um úthlutun verða aðgengilegar í útboðskerfinu sem hægt verður að nálgast í gegnum vefsíðu Arctica Finance, www.arctica.is/play, með því að nota sömu aðgangsauðkenni og notuð voru við skráningu áskrifta í útboðinu.

Áætlað er að gjalddagi og eindagi áskriftarloforða í útboðinu verði mánudaginn 5. júlí og er áætlað að afhenda áskrifendum hluti í Play eigi síðar en 9. júlí 2021 að undangenginni greiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK