Fjárfestar hafa hafið sölu lóða undir íbúðarhúsnæði í nýju hverfi í Vogum en fullbyggt gæti það rúmað um tvö þúsund íbúa. Með því myndi íbúafjöldinn í Vogum ríflega tvöfaldast.
Sverrir Pálmason, lögmaður og fasteignasali, er einn þeirra sem standa að verkefninu. Hann segir í ítarlegu viðtali í ViðskiptaMogganum í dag að þróunin á höfuðborgarsvæðinu hafi skapað tækifæri til uppbyggingar á svæðinu. Lóðarverð á hverja íbúð sé frá þremur milljónum króna sem sé allt að þrefalt lægra en á þéttingarreitum á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrir vikið verði hægt að bjóða hagkvæmt húsnæði sem henti meðal annars fyrstu kaupendum og eldra fólki sem er að minnka við sig.