Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir útlit fyrir meiri hagvöxt í ár en Greining bankans áætlaði í vor. Þá gerði hún ráð fyrir 2,7% hagvexti og hóflegum vexti í neyslu og fjárfestingu.
„Við gætum fengið rúmlega 3% hagvöxt í ár. Það er fljótt að segja til sín þegar einkaneyslan vex hraðar en við áætluðum,“ segir Jón Bjarki og vísar m.a. til þess að væntingavísitala Gallup er í hæstu hæðum.
Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, segir nú útlit fyrir 3,5-3,7% hagvöxt í ár. Til samanburðar hafi Analytica spáð 2,5-3% hagvexti í vor. Líkt og hjá Íslandsbanka er vísað til batamerkja í einkaneyslunni.
Í umfjöllun um þessi mál í ViðskipaMogganum í dag segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, samtökin ekki hafa gert hagspá. Hins vegar séu kröftug merki um viðsnúning á breiðum grundvelli í hagkerfinu. Þar með talið í iðnaðinum.