SORPA bs. og Ýmir technologies ehf. hafa gert með sér samkomulag um tilfærslu og gangsetningu á vinnslulínu Ýmis til meðhöndlunar úrgangs frá dýraslátrun við GAJU í Álfsnesi. Búnaðinum er ætlað að leysa af hólmi urðun þessa úrgangsflokks og nýta þess í stað þau verðmæti sem í honum felast.
Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að urðun lífræns úrgangs hefur í för með sér margvísleg neikvæð umhverfisáhrif, til dæmis mikla losun metangass, sem er 25 sinnum skaðlegri gróðurhúsaloftegund en koltvísýringur.
„Við dýraslátrun fellur til mikið magn úrgangsfitu sem ekki nýtist til manneldis eða sem fóður, en nýta má til framleiðslu á sjálfbæru samgöngueldsneyti. Ætla má að árlegt aðstreymi dýraleifa til ráðstöfunar hjá SORPU haldist svipað og verið hefur á næstu árum, en úr því hráefni, að viðbættri t.d. notaðri steikingarolíu sem Terra safnar, má framleiða á ársgrundvelli allt að milljón lítra af lífdísileldsneyti til íblöndunar á venjulega dísilbíla," er haft eftir Sigurði Ingólfssyni framkvæmdastjóra Ýmis í tilkynningunni.