Hótel í Reykjavík hífa verðið upp á ný

Hótel í Reykjavík eru farin að hækka verð sitt að nýju og varð hækkunin nú í maí töluvert meiri en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna. Þrátt fyrir að verðið sé tekið að hækka hér á landi er það enn lágt í sögulegu ljósi. 

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

„Verðskrá hótela í Reykjavík er byrjuð að hækka á ný sé horft á verðlagningu í evrum. Meðalverð á herbergi nam 97,9 evrum á nótt í Reykjavík í maí borið saman við 56,5 evrur í fyrra,“ segir í Hagsjánni.

46% hærra verð en í fyrra

Verðið á gistinótt er því um 46% hærra í maí í ár en í fyrra. Þá er þetta annar mánuðurinn í röð sem verðið hækkar á ársgrundvelli en verðhækkunin í apríl nam 21,3%.

„Á tímabilinu frá mars í fyrra og til sama mánaðar í ár hafði mælst stöðug verðlækkun á 12 mánaða grundvelli. Á því tímabili var lækkunin mest í maí í fyrra en þá lækkaði verðið um 52,5%,“ segir í Hagsjánni.

Þar kemur fram að verðhækkunin endurspegli aukna eftirspurn eftir hótelgistingu í Reykjavík og að það megi gera ráð fyrir að verðið haldi áfram að hækka á næstu mánuðum sé litið til verðhækkana á ársgrundvelli.

„Þrátt fyrir þessa verðhækkun er verðið enn lágt miðað við sama mánuð á árunum fyrir faraldur. Þannig var verðið núna í maí 31% lægra en í maí 2019 og 41% lægra en í maí 2018. Fara þarf aftur til ársins 2011 til að finna lægra verð í maí en í maí á þessu ári,“ segir í Hagsjánni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK