Íslenska ríkið hefur náð samkomulagi við eigendur Auðkennis um kaup á öllu hlutafé félagsins. Auðkenni gefur út rafræn persónuskilríki sem eru notuð til að auðkenna einstaklinga í samskiptum við ríkisstofnanir og einkaaðila.
Stærstu eigendur Auðkennis voru bankar, Síminn og sparisjóðir en kaupverðið var rétt tæpur milljarður króna eða 948 milljónir.
Samhugur var um að ríkið myndi eiga Auðkenni og að það væri í samræmi við þá miklu þróun rafrænnar auðkenningar sem hefur orðið í samfélaginu. „Ríkið gefur út almenn skilríki, s.s. ökuskírteini og vegabréf og nú einnig rafræn skilríki. Meginverkefni Auðkennis verður að tryggja áframhaldandi þróun og útbreiðslu rafrænna skilríkja meðal almennings, sem einnig styður við þróun tengdrar stafrænnar þjónustu innan hins opinbera geira og einkageirans og sjálfbæra þróun félagsins,“ segir í tilkynningunni á vef Stjórnarráðsins