Þórarinn Þórhallsson, einn eigenda heildsölunnar Raritet, segir orkudrykknum State Energy hafa verið vel tekið á Íslandi. Salan hófst í Hagkaupum og víðar í Reykjavík í febrúar og hafa síðan Nettó og Iceland og fleiri verslanir hafið sölu á orkudrykknum.
Markaðssetningin hefur vakið athygli en Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er andlit vörumerkisins á Íslandi en State Energy samdi við hann um kynningu til rúmlega fjögurra ára.
Drykkurinn er framleiddur í Danmörku og inniheldur meðal annars koffín, grænt te, B-vítamín og palatínósa en síðastnefnda sykran er sögð tryggja hægari hækkun blóðsykurs en venjulegur sykur.
Að sögn Þórarins þróuðu félagarnir Jon Andersen og Kim Have drykkinn með það í huga að hann veiti íþróttafólki orku lengur en hefðbundnir íþróttadrykkir.
Markhópurinn sé ekki síst fólk sem stundi íþróttir og hreyfingu.
Þórarinn segir Raritet hafa boðist að gerast umboðsaðili fyrir State Energy síðasta haust. Það hafi gengið eftir og var samið við Gylfa Þór í kjölfarið. Mikil samkeppni sé í sölu orkudrykkja á Íslandi en Raritet selji jafnframt drykki og aðrar vörur frá Functional Nutrition. baldura@mbl.is