Jeff Bezos, stofnandi Amazon, lætur í dag formlega af störfum sem forstjóri fyrirtækisins. Bezos heldur á ný mið, meðal annars út í geim. Andy Jassy, sem hefur stýrt vefþjónustu Amazon, tekur við starfi forstjóra en Bezos mun gegna stjórnarformennsku hjá Amazon.
Bezos, sem er 57 ára, greindi frá því í febrúar að hann hygðist stíga til hliðar sem forstjóri fyrirtækisins á þessu ári. Ljóst er að hann skilur eftir sig varanlega arfleifð í viðskiptaheiminum. Bezos fór frá því að taka sjálfur saman pantanir í bílskúrnum sínum og keyra á næsta pósthús yfir í að stýra valdamesta fyrirtæki heims. Og það aðeins á 27 árum.
Óhætt er að fullyrða að Bezos hætti á toppnum en Amazon er í dag metið á yfir 1,7 billjónir (e. trillion) dollara og var hagnaður netverslunarinnar og tæknirisans 386 milljarðar dollarar á síðasta ári eða sem nemur rúmum 48 þúsund milljörðum króna.
„Bezos var frumkvöðull sem kynnti til sögunnar mörg þægindi sem fólk tekur sem sjálfsögðum hlut, líkt og að kaupa eitthvað á netinu og fá það sent heim að dyrum næsta dag,“ segir Darrel West, stjórnandi hjá Brookings-stofnuninni, sem einblínir á nýjungar í tæknigeiranum. Netverslanageirinn á Bezos margt að þakka, segir West.
Bezos „hafði innsæi fyrir hinu rétta“ þegar kom að ákvarðanatöku á markaðnum, hefur AFP-fréttastofan eftir Roger Kay, greinanda hjá Endpoint Technologies Associates. Kay fer fögrum orðum um Bezos og lýsir honum sem einum af bestu viðskiptamönnum sinnar kynslóðar.
Amazon-veldið gerði Bezos að ríkasta manni í heimi og er hann metinn á 200 milljarða dollara, jafnvirði 25 þúsund milljarða króna.
Bezos hættir nú afskiptum af daglegum rekstri Amazon og hyggst einbeita sér að geimfyrirtæki sínu, Blue Origin, og setur hann stefnuna á geiminn síðar í þessum mánuði.
Hver framtíð Amazon verður, verður að koma í ljós en fyrirtækið hefur reglulega verið gagnrýnt fyrir meðferð á starfsfólki. Þrátt fyrir að uppfylla skilyrði um lágmarkslaun og ýmis önnur kjör hefur ítrekuð áhersla fyrirtækisins á afkastagetu og eftirlit með starfsfólki verið harðlega gagnrýnd.
Bezos brást við gagnrýninni fyrr á þessu ári með herferð undir yfirskriftinni „Besta starfsfólk jarðar og öruggasti vinnustaður á jörðinni“. Nú hefur Bezos hins vegar sagt skilið við dagleg störf hjá Amazon og ætlar að yfirgefa jörðina, að minnsta kosti um sinn.