Íslandsbanki stefnir að því að ná kostnaðarhlutfalli bankans niður í 45% árið 2023. Það verður ekki gert án þess að fækka fólki að sögn Birnu Einarsdóttur, bankastjóra. Hún er gestur í Dagmálum, streymisþætti á mbl.is sem er opinn öllum áskrifendum Morgunblaðsins.
„Það eru ýmis tækifæri. Við vorum með markmið að fara undir 55% og við náðum því á síðasta ári. Þá er sett enn stífara markmið og hlaupið hraðar og hraðar. Við setjum okkur 45% fyrir árið 2023 og það gerist auðvitað ekki af sjálfu sér.“
Bendir hún á að mjög hafi fækkað í starfsliði bankans á síðustu árum. Það sé ein af lykilbreytunum þegar kemur að lækkandi kostnaðarhlutfalli.
„Við erum að sameina hjá okkur alla bakvinnslu og klára lánakerfisinnleiðingu þannig að það eru hagræðingartækifæri. Við höfum verið að fækka starfsfólki af því að það er ekkert hægt að tala um kostnaðarhlutföll í banka öðruvísi en að tala um það því það er svo stór hluti okkar kostnaðar. Hann hefur verið að lækka um yfir 5% á ári. Í okkar áætlunum er áframhaldandi fækkun en við vonumst alltaf til að geta tekið það út úr starfsmannaveltu, starfsmenn eru að fara á eftirlaun. En auðvitað höfum við ekkert komist hjá því að fara í uppsagnir og höfum reynt að gera það eins vel og við mögulega getum. Mest kemur þó út úr þessari veltu og það á alveg eftir að halda áfram.“
Gæti það verið 5% á komandi árum?
„Þrjú til fimm prósent gæti það verið og það er það sem við erum að sjá í bankaheiminum.“
Spurð út í hvaða leiðir bankinn hafi til þess að auka skilvirkni og fækka handtökum á vettvangi segir Birna að bankinn sé farinn að notast í meira mæli við róbóta.
Við erum komin með u.þ.b. 20 róbóta sem eru að vinna að ákveðnum lausnum sem tók oft töluverðan tíma að gera [...] Fyrir einhverjum árum var mjög stór hópur starfsmanna að sinna svokallaðri greiðsluþjónustu. Þar sem var tekið út af reikningunum þínum mánaðarlega einhver föst upphæð og svo voru greiddir fyrir þig reikningarnir. Það þurfti að endurreikna þetta einu sinni á ári og svo framvegis. Núna er róbóti sem reiknar þetta og getur gert þetta daglega þess vegna til þess að vera með rétta upphæð fyrir hvern viðskiptavin.“
Birna er gestur Stefáns Einars Stefánssonar í Dagmálum.
Þátturinn er opinn öllum áskrifendum Morgunblaðsins og má nálgast þá á mbl.is.