Erlend kortavelta var 54% hærri í júní en maí samkvæmt tíðindum Rannsóknarseturs verslunarinnar. Heildargreiðslukortaveltan í júní nam 91,6 milljörðum króna og jókst um 14,5% miðað við sama mánuð í fyrra.
Kortaveltan jókst í raun í flestum samanburði. Heildarveltan var hærri en í mánuðinum á undan og meiri en fyrir ári. Mikil aukning varð til að mynda í menningar-, afþreyingar- og tómstundastarfsemi og jókst kortaveltan í þeim geira um 26,3% í júní miðað við maí.
Kortavelta erlendra ferðamanna var 9,42% af heildarkortaveltu í júnímánuði samanborið við 3,63% af heildarkortaveltu árið áður. Af þeim 9,42% var rúmur helmingur greiðslnanna frá Bandaríkjamönnum eða 58%.
Erlendir ferðamenn eiga þó eitthvað í land með að ná hlutfalli kortaveltu sem var 2019, síðasti „eðlilegi júnímánuður“, þegar kortavelta erlendra ferðamanna nam 26,8% af heildarkortaveltu.