Ekki standa líkur til þess að tekjur ríkissjóðs af fiskveiðiauðlindinni muni aukast, nái tillögur Viðreisnar um svokallaða samningaleið fram að ganga. Þetta segir Daði Már Kristófersson, varaformaður flokksins og prófessor í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands.
Bendir hann á að veiðigjöld sem nú eru lögð á útgerðina nemi um þriðjungi af hagnaði þeirra og að kerfisbreytingar þær sem hann telji nauðsynlegt að ráðast í muni skila svipuðum tekjum til lengri tíma litið.
„Auðvitað gæti einhver sagt að verulegur partur [arðsins] væri skilinn eftir hjá útgerðinni. En tilfellið er að það er mjög mikilvægt að útgerð sé ábatasöm atvinnugrein. [...] allir skattar valda einhverskonar skaða og umfangið af þeim skaða er háð umfangi skattlagningarinnar og það er mjög mikilvægt að við séum örugglega réttum megin þar. Ég vil benda á að sambærileg skattlagning auðlindagreina í nágrannalöndunum er iðulega ekki meiri en þetta með beinni skattlagningu.“
Daði Már er gestur í Dagmálum ásamt Ragnari Árnasyni, fyrrverandi prófessor í auðlindahagfræði við HÍ. Spurður út í hvað knýi á um breytt fyrirkomulag í kringum úthlutun fiskveiðiheimilda, fyrst slíku kerfi sé ekki ætlað að skila meiri tekjum í ríkissjóðs, segir Daði Már að innköllun núverandi veiðiheimilda yfir langt tímabil, þar sem hægt væri að bjóða þær upp í kjölfarið, sé líklegri til þess að tryggja sátt um sjávarútveginn.
Þá sé heppilegra að semja við útgerðina til langs tíma og tryggja með því fyrirsjáanleika sem ekki fáist í núverandi kerfi þar sem talsvert sé hringlað með aðferðafræði við útreikning auðlindagjaldsins.