Icelandair Group birti uppgjör annars ársfjórðungs í Kauphöllinni fyrr í kvöld. Í því kom fram að félagið hefði aukið umsvif sín verulega í takt við aukna eftirspurn og aftur hafið flug til fjölda áfangastaða.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, er bjartsýnn á næstu misseri í rekstrinum. „Lausafjárstaðan hefur styrkst verulega hjá félaginu, í lok júní vorum við með 46 milljarða í laust fé og óádregnar lánalínur. Við vorum með jákvætt handbært fé frá rekstri í öðrum ársfjórðungi og það hefur ekki verið hærra á öðrum ársfjórðungi síðan 2017,“ segir Bogi í samtali við mbl.is
Aðspurður um væntanleg tilmæli stjórnvalda segir Bogi þau ekki hafa teljandi áhrif á framtíðarstefnu félagsins: „Við höldum bara áfram á okkar braut þrátt fyrir hraðahindranir á leiðinni. Það koma jákvæðar og neikvæðar fréttir á víxl en við gerum ráð fyrir því að þróunin verði áfram jákvæð til lengri tíma eins og hún hefur verið síðustu mánuði. Uppleggið í okkar starfsemi og stefnu miðar við það.“
Bogi bendir í því samhengi á jákvæðar vendingar í vestri, „við sjáum fréttir af því frá Kanada að þau stefni að því að opna landamærin í byrjun september sem yrði auðvitað mjög jákvætt fyrir okkar leiðakerfi. Ef það gengur eftir yrði jafnframt mjög jákvætt ef Bandaríkin myndu fylgja í kjölfarið og opna fyrir ferðalög frá Evrópu.
Í uppgjörinu kemur fram að Icelandair hóf flug á ný til 15 áfangastaða á öðrum ársfjórðungi og fjöldi brottfara á viku hafi aukist úr 28 í apríl í 160 í júní. Íslendingar hafa í meira mæli ferðast út fyrir landsteinanna í sumar.
Bogi segir þó aðeins hafa dregið úr bókunum Íslendinga síðustu dagana: „Íslendingar tóku mjög vel við sér í byrjun sumars en hafa aðeins dregið úr aftur í ljósi stöðu faraldursins hérna innanlands. Við sjáum þó áfram mikinn áhuga á Íslandi erlendis frá og þrátt fyrir bakslag þessa dagana hér á landi tel ég að tækifærin séu áfram mikil til lengri tíma litið.“