Landsbankinn hagnast um 6,5 milljarða

Landsbankinn hagnaðist um 14,1 milljarða á fyrri hluta ársins.
Landsbankinn hagnaðist um 14,1 milljarða á fyrri hluta ársins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður Landsbankans á öðrum ársfjórðungi nam 6,5 milljörðum króna samanborið við 341 milljónar króna hagnað á sama fjórðungi fyrra árs.

Vaxtatekjur bankans dragast óverulega saman en það sem snýr stöðu bankans við miðað við fyrra ár er að virðisbreyting útlána er nú jákvæð um 293 milljónir króna en var neikvæð um 8.191 milljón á öðrum fjórðungi 2020. Þá aukast þjónustutekjur talsvert og nema 3.197 milljónum en voru 2.391 milljón í fyrra.

Rekstrargjöld bankans standa í stað milli ára og athygli vekur að launakostnaður lækkar, nemur með launatengdum gjöldum 3.724 milljónum en var 3.802 milljónir.

17,4 milljarða viðsnúningur

Á fyrir helmingi ársins nemur hagnaður Landsbankans 14,1 milljarði króna samanborið við 3,3 milljarða króna tap á fyrri árshelmingi 2020. Líkt og í uppgjöri 2. fjórðungs eru það virðisbreytingar útlána sem hafa mest áhrif. Þær eru jákvæðar sem nemur 2,8 milljörðum í ár en voru neikvæðar um 13,4 milljarða yfir fyrri helming síðasta árs.

1.677 milljarðar í eignir

Eignir bankans í lok júní námu 1.677 milljörðum króna og höfðu aukist úr 1.564 milljónum um síðustu áramót. Skuldir bankans hafa aukist um ríflega 100 milljarða og nema nú 1.409 milljörðum. Eigið fé bankans stendur í 267,9 milljörðum en var 258,3 milljarðar í lok síðasta árs.

Í tilkynningu frá bankanum er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra að uppgjör fyrstu sex mánaða ársins sé afar gott, arðsemi eigin fjár góð og kostnaður bankans fari lækkandi.

„Um mitt ár 2020 settum við verulegar fjárhæðir í varúðarsjóð vegna mögulegra útlánatapa en vegna betri stöðu í efnahagslífinu og fárra vanefnda eru virðisbreytingar útlána nú jákvæðar og varúðarsjóður lækkar á árinu. Bankinn er eftir sem áður í góðri stöðu til að takast á við áframhaldandi óvissu og bregðast við áhrifum Covid-19-faraldursins.“

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir uppgjör bankans sterkt og …
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir uppgjör bankans sterkt og að ánægjulegt sé að kostnaður fari lækkandi. Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Bendir hún á að bankinn hafi stutt vel við fyrirtæki í heimsfaraldri kórónuveirunnar, ekki síst ferðaþjónustufyrirtæki en einnig í öðrum geirum sem orðið hafi fyrir áhrifum af ástandinu.

„Við lítum svo á að það sé sérlega mikilvægt að fyrirtæki séu sem best í stakk búin til að endurráða fólk og hefja starfsemi af fullum krafti eftir erfitt tímabil. Við höfum verið leiðandi á byggingarmarkaði og undanfarin ár hefur bankinn fjármagnað þúsundir íbúða og haldið áfram að byggja upp traust samstarf við leiðandi verktakafyrirtæki. Viðskipti við sjávarútvegsfyrirtæki hafa aukist og það er óhætt að segja að hápunktur ársins í sjávarútvegi, hingað til, hafi verið sérstaklega vel heppnað hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar, sem Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hafði umsjón með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK