Fyrirhugaðar höfuðstöðvar Landsbankans eru að taka á sig mynd en fram undan er að klæða húsið að utan með steinum.
Þær upplýsingar fengust frá Landsbankanum að klæðningin er úr íslensku blágrýti.
„Um er að ræða um það bil 3.000 m2 af klæðningu fyrir útveggi hússins. Vinna við utanhússklæðningu fer fram samhliða fullnaðarfrágangi. Reiknað er með að húsið verði tekið í notkun á seinni hluta ársins 2022. Uppsetning á klæðningu hefst með því að leiðarar til festinga á klæðningu eru festir á útveggi. Sá verkþáttur er þegar hafinn,“ sagði í svari frá bankanum um verkefnið.
Glerhjúpur setur sem kunnugt er mikinn svip á Hörpu, norðan við fyrirhugaðar höfuðstöðvar bankans, og verður því athyglisvert að sjá hvernig hjúparnir kallast á, ef svo má að orði komast, þegar Landsbankinn tekur húsið í notkun á næsta ári.