Stofnun hönnunarfyrirtækisins Farmers Market fyrir 16 árum tengist skaðlegum breytingum sem orðið hafa á tískuheiminum á síðustu tuttugu árum.
Bergþóra Guðnadóttir, annar eigenda fyrirtækisins, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að tískuheimurinn hafi verið að rústa sjálfum sér. Við því hafi hún viljað bregðast.
„Hér áður var þetta allt í föstum skorðum. Tískan var kynnt á tískuvikunni í New York og á öðrum helstu sýningarpöllum og vörusýningum heimsins sex mánuðum áður en hún kom í búðir. Ný hönnun var hernaðarleyndarmál og allir biðu spenntir eftir því hvað hönnuðir hefðu verið að undirbúa fyrir markaðinn. Ef einhver tók upp myndavél á vörusýningu þar sem var verið að kynna það sem átti að koma í verslanir hálfu ári síðar þá var það litið mjög alvarlegum augum," segir Bergþóra.
„Nú er þetta þannig að það er búið að klæða áhrifavalda í fötin áður en þau eru sýnd á tískupöllunum, og dreifa myndum á samfélagsmiðlum. Svo eru vörurnar nánast komnar á útsölu um leið og þær koma í búðirnar. Hraðinn er orðinn svo mikill og skaðlegur. Í gamla daga sendu hönnunarfyrirtæki frá sér kannski tvær vörulínur á ári, en í dag þurfa þau að senda frá sér fjórar til átta línur, með kannski 3-400 vörutegundum í hverri. Auk þess eru allir búnir að sjá allt áður en flíkurnar koma í búðir. Þetta er að eyðileggja bransann. Tískuheimurinn er orðinn eins og skrímsli sem þarf að fóðra í sífellu og verður aldrei mett. Galdurinn í þessu hefur að miklu leyti horfið,“ segir hún.
Lestu ítarlegt viðtal við Bergþóru í ViðskiptaMogganum í dag.