Vinnumarkaðurinn réttir úr kútnum

Færri eru utan vinnumarkaðar í ár en á sama tíma …
Færri eru utan vinnumarkaðar í ár en á sama tíma í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 16 til 74 ára jókst um 2,3 prósentustig frá sama ársfjórðungi í fyrra. Þar með er atvinnuþátttaka þessa hóps orðin 80,2 prósent. Fjarvinna hefur aukist en þeir sem vinna heima virðast skila af sér fleiri vinnustundum á viku en þeir sem gera það ekki. Þetta kemur fram í niðurstöðum Hagstofunnar.

Fjöldi starfandi á öðrum ársfjórðungi 2021 var 194.500 manns í heildina og var atvinnuþátttakan því 73,9 prósent. Hlutfall starfandi kvenna var 69,5 prósent og starfandi karla 78,0 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu var hlutfall starfandi fólks 74,8 prósent og utan höfuðborgarsvæðis 72,3 prósent.

Starfandi fólki fjölgaði þannig um 7.200 manns frá öðrum ársfjórðungi til þess þriðja og hækkaði atvinnuþátttaka þannig um 2,2 prósentustig. Þá fjölgaði starfandi konum um 4.000 en körlum um 3.200.

Árið 2020 var hlutfall starfandi fólks 71,7 prósent á öðrum ársfjórðungi. Atvinnuþátttaka kvenna var þá 67,2 og karla 75,9 prósent. Þá var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 72,5 prósent og 70,3 prósent utan höfuðborgarsvæðisins.

Hagstofa metur það svo að upplýsingarnar megi túlka þannig að vinnumarkaðurinn sé að rétta úr kútnum eftir niðursveifluna vegna Covid-19.

Graf/Hagstofa Íslands

Vinnustundum fækkar hjá konum en fjölgar hjá körlum

Einnig var skoðaður fjöldi vinnustunda. Starfandi fólk vann að jafnaði 38,5 klukkustundir í venjulegri vinnuviku, samanborið við 38,9 stundir á öðrum ársfjórðungi 2020.

Hjá konum virtist vinnustundum hafa fækkað um rúmlega eina og hálfa vinnustund á viku milli ára en hjá körlum hefur þeim fjölgað um tæplega eina klukkustund.

Atvinnuleysi á öðrum ársfjórðungi mældist 7,9 prósent hjá fólki á aldrinum 16 til 74 ára, 16.700 einstaklingar. Atvinnuleysi kvenna var 8,3 prósent og 7,6 prósent meðal karla. Á sama tíma voru um 7.600 störf laus á íslenskum vinnumarkaði. Á öðrum ársfjórðungi árið 2020 voru um 16.100 einstaklingnar atvinnulausir og hlutfall þeirra af vinnuafli líka 7,9 prósent.

Atvinnuleysi hækkar hjá ungum en minnkar hjá fullorðnum

Sé horft til aldurshópsins 16 til 24 ára var atvinnuleysi 20,0 prósent á þessum öðrum ársfjórðungi sem er talsverð hækkun frá sama ársfjórðungi árið 2020, 4,2 prósentustig. Á tímabilinu minnkaði þó atvinnuleysi hjá þeim sem eru á aldrinum 25 til 54 ára um 0,6 prósentustig eða úr 7,1 prósentum í 6,5 prósent.

Atvinnuleysi minnkaði einnig hjá þeim sem eru á aldrinum 55 til 74 ára eða um eitt prósentustig, úr 4,4 prósentum á öðrum ársfjórðungi 2020 í 3,4 prósent á öðrum ársfjórðungi 2021.

Færri eru utan vinnumarkaðar í ár en á sama tíma í fyrra, 52.100 manns eða 19,8 prósent, samanborið við 57.700 eða 22,1 prósent.

Flestir utan vinnumarkaðar eru á eftirlaunum þá næsta koma öryrkjar, svo nemar og einhverjir glíma við önnur veikindi eða eru tímabundið ófærir til vinnu.

Fjarvinna eykst

Fjarvinna hefur aukist um 8,6 prósentustig en á öðrum ársfjórðungi þessa árs vann að jafnaði 48,8 prósent launafólks á aldrinum 25 til 64 ára aðalstarf sitt venjulega eða stundum í fjarvinnu heima. Í fyrra voru það 40,2 prósent.

Þeir sem sinntu fjarvinnu heima unnu 40,4 vinnustundir á viku en þeir sem aldrei sögðust sinna fjarvinnu heima unnu 38,7 klukkustundir, er þetta sambærilegt þeim niðurstöðum sem fengust í fyrra

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK