Ari Kristinn Jónsson, sem hefur undanfarin 11 ár gegnt stöðu rektors við Háskólann í Reykjavík, mun taka við stöðu forstjóra netöryggisfyrirtækisins AwareGO. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Undanfarin tvö ár hefur AwareGO vaxið hratt. Þar starfa hátt í 30 starfsmenn á skrifstofum í fjórum löndum.
Fráfarandi forstjóri og einn af stofnendum AwareGO, Ragnar Sigurðsson, mun starfa áfram hjá fyrirtækinu sem helsti sérfræðingur fyrirtækisins í netöryggismálum.
Ari Kristinn er með doktorspróf frá Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Hann gegndi stöðu forseta tölvunarfræðideildar HR í þrjú ár áður en hann tók við sem rektor og starfaði þar áður hjá NASA, geimferðastofnun Bandaríkjanna, sem vísindamaður og stjórnandi. Hann er sérfræðingur á sviði gervigreindar og sjálfvirkni og hefur sterk tengsl við alþjóðlega tækni- og þróunarsamfélagið.
„Það er gríðarlega spennandi að fá að taka þátt í því sem framundan er hjá AwareGO. Líf okkar allra, þar með talið viðskipti, afþreying og stjórn hluta, er allt að færast á netið. Á sama tíma stendur vaxandi ógn af tölvuglæpum, eins og sést hefur í fréttum undanfarið. Veikasti hlekkurinn í net- og gagnaöryggismálum er mannfólkið sjálft og því skiptir svo miklu máli að fræða og þjálfa fólk til að loka fyrir þann leka,“ er haft eftir Ara Kristni í fréttatilkynningu og jafnframt:
„AwareGO er í sérflokki þegar kemur að þessu viðfangsefni, með þjálfunarefni og aðferðir sem ná sérstaklega vel til fólks, samtvinnað við hugbúnaðarkerfi sem metur mannlega áhættuþætti og ráðleggur hvar úrbóta er helst þörf. Á næstu mánuðum og árum mun AwareGO því halda áfram að vaxa hratt, bæði í mannskap og í fjölda viðskiptavina, og það verður virkilega gaman að fá að styðja við þá þróun í samstarfi við þann frábæra hóp sem fyrir er í fyrirtækinu.“