Faraldur kórónuveiru hefur haft margvísleg áhrif á rekstur apóteka. Eflaust kemur engum á óvart að handspritt og grímur hafi selst mikið. Hins vegar var óvænt þróun í sölu þungunarprófa, en Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Lyfju, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að sala á þeim hafi aukist eftir að faraldurinn fór af stað.
Sölutölur annars varnings geta einnig gefið ákveðna vísbendingu um breytt atferli fólks í faraldrinum. Verslanir á vegum Lyfja og heilsu hafa að sögn framkvæmdastjóra þeirra, Kjartans Arnar Þórðarsonar, selt töluvert minna af lyfjum til meðferðar við njálg og höfuðlús.
Kjartan segir tækniframfarir í apótekum eiga eftir að bæta þjónustu við viðskiptavini apóteka og auka þægindi þeirra. „Eins mun aukið samstarf við aðra hluta heilbrigðiskerfisins í gegnum ákveðnar tækniframfarir gagnast öllu kerfinu í heild sinni.“
Hraðpróf kunna að skipa stóran sess í starfsemi apóteka þannig að þau muni skima fyrir sjúkdómum og bjóða upp á meðferðir við þeim í kjölfarið.