Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir nærtækt að áætla að heilu vinnustaðirnir þyrftu að loka starfsemi vegna sóttkvíar ef sömu reglur yrðu áfram í gildi, þar sem skólastarf fer senn af stað.
„Það er bara einfalt reikningsdæmi,“ segir Bjarnheiður.
Samtökin líta jákvæðum augum á fyrirætlanir stjórnvalda um að slaka á reglum um sóttkví, en í síðustu viku sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að til umræðu væri að fjölskylda lendi ekki sjálfkrafa í sóttkví ef barn greinist með Covid-19 á heimili heldur myndi viðhafa smitgát, og þá meðal annars sótt vinnu.
„Við höfum einmitt verið að tala fyrir tilsökunum hvað sóttkví varðar til þess að atvinnulífið lamist ekki og heilu vinnustaðirnir þurfi ekki að fara í sóttkví, annaðhvort út af starfsmönnum eða börnum,“ segir hún.
Mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu séu lítil og ef reglunum yrði ekki breytt myndi þjónusta þeirra skerðast verulega. „Síðan eru mörg ferðaþjónustufyrirtæki þannig að það er ekki hægt að vinna að heiman, til dæmis veitingastaðir og hótel,“ segir hún.
Magnús Ingvason, skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla, segir að minni kröfur um sóttkví geri skólunum auðveldara fyrir en hann sé þó ekki tilbúinn að beinlínis fagna þessum fyrirætlunum:
„Ég get ekki orðað þetta þannig að ég fagni þessu beint en þetta gerir skólunum að sjálfsögðu auðveldara fyrir. Við erum náttúrulega með mjög stífar sóttvarnareglur hér, allir eru með grímu allan daginn og það er góður metri á milli borða. Allir spritta öll borð áður en tími hefst. Við lágmörkum alla áhættu en hún er sannarlega fyrir hendi,“ segir hann.
En áttu ekki von á því að nemendur geti lagt betri stund á námið ef þeir eru síður sendir í sóttkví?
„Við erum mjög öflugur fjarnámsskóli, þannig að nemendur sem ná ekki að mæta í kennslutíma hafa aðgang að kennslugögnum inni á vefnum. Við vonumst til þess að þeir missi ekki mikið úr ef þeir þurfa að fara í sóttkví,“ segir hann að lokum.