Samtök iðnaðarins birtu í morgun greiningu þar sem lagst er gegn því að Seðlabankinn hækki í þessari viku stýrivexti til að spyrna gegn yfirstandandi verðbólguskoti. Verðbólga tók að hækka um mitt síðasta ár og fór hæst í 4,6% í apríl á þessu ári en SI benda á að frá því í apríl hafi verðbólga farið lækkandi auk þess sem kannanir sýni að aðilar á markaði vænti þess að verðbólga haldi áfram að fikrast nær verðbólgumarkmiðum á komandi ársfjórðungum.
Ingólfur Bender er aðalhagfræðingur SI og segir hann að þeir kraftar sem hafi ýtt verðbólgu upp að undanförnu séu að hluta utan við áhrifasvið Seðlabankans: „Heimsmarkaðsverð á ýmsum hrávörum hefur verið á uppleið og t.d. olía hækkað verulega. Bendir margt til að um tímabundin áhrif sé að ræða og hefur m.a. verðhækkun á timbri gengið til baka að miklu leyti. Áhrif gengislækkunar krónunnar í kórónuveirufaraldrinum eru líka enn að koma fram í verðlagi, og þá hafa launahækkanir á vinnumarkaði átt sinn þátt í verðbólguþróuninni. Loks hefur dregið úr hækkun húsnæðisverðs, m.a. vegna vaxtahækkunar Seðlabankans í maí og breytinga á reglum um veðsetningarhlutfall fasteigna.“
Óttast Ingólfur að hækkun stýrivaxta nú myndi hafa íþyngjandi áhrif á atvinnulífið á mjög viðkvæmum tímum. Í greiningu SI segir að hagvísar sýni að hagkerfið sé tekið að rétta úr kútnum eftir skakkaföll kórónuveirufaraldursins og dregið hafi úr atvinnuleysi. Efnahagsbatinn sé samt brothættur og staða margra fyrirtækja slæm eftir niðursveiflu undanfarinna missera. Eftirspurn hafi tekið við sér en sé ekki komin á sama stað og áður og skuldastaðan víða erfið. Þá hafi nýtt og bráðsmitandi afbrigði kórónuveirunnar aukið óvissu um efnahagsframvinduna.