Þórður Bjarnason, sem ráðinn var til Play í mars í fyrra og gegndi starfi framkvæmdastjóra sölusviðs, hefur látið af störfum. Birgir Jónsson, forstjóri félagsins, staðfestir að ákveðið hafi verið að gera breytingar á framkvæmdastjórn fyrirtækisins.
Þessar breytingar komi í kjölfar þess að nýir fjárfestar séu komnir að fyrirtækinu og áherslur taki breytingum, m.a. vegna innreiðar félagsins á Bandaríkjamarkað sem stefnt er á að hefjist næsta vor.
Þórður er reynslubolti úr flugheiminum. Hann fór til Play frá Icelandair þar sem hann stýrði aðfangakeðju fyrirtækisins. Þá var hann áður sölustjóri á vettvangi Icelandair-hótelanna. Áður en hann kom til hótelanna var hann sölu- og markaðsstjóri hjá Primera Air og þar áður fyrir Evrópumarkað Icelandair.
Fyrr í sumar skipti félagið einnig um markaðsstjóra og segir Birgir að þessar hrókeringar séu til marks um breyttar áherslur. Á sama tíma hafi margir öflugir starfsmenn komið til starfa hjá félaginu og teymið sé að taka á sig góða mynd.
Enn hefur ekki verið tilkynnt um hver muni taka við starfi Þórðar en Birgir segir í samtali við mbl.is að það verði tilkynnt innan tíðar.