Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 1,25%.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Efnahagshorfur hafa batnað frá fyrri spá bankans. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í ágústhefti Peningamála eru horfur á 4% hagvexti í ár sem er 0,9 prósentum meiri vöxtur en spáð var í maí. Vegur þar þungt örari fjölgun ferðamanna í sumar en gert var ráð fyrir. Atvinnuleysi hefur hjaðnað meira en spáð var þótt það sé enn mikið og slakinn í þjóðarbúskapnum minnkað hraðar,” segir í tilkynningunni.
Fram kemur að stór hluti þjóðarinnar sé bólusettur gegn kórónuveirunni. Smitum hafi aftur á móti fjölgað og nokkur óvissa sé um framvindu farsóttarinnar vegna Delta-afbrigðisins.
Einnig gætu áhrif tímabundinni framboðstruflana erlendis varað lengur en áður var talið. Þær hafa hækkað kostnað við að framleiða og dreifa vörum um allan heim.
„Verðbólga mældist 4,4% á öðrum fjórðungi ársins en var 4,3% í júlí. Almennur verðbólguþrýstingur virðist fara minnkandi, einkum ef litið er til undirliggjandi verðbólgu, þótt hann sé enn nokkur. Svo virðist sem hækkun verðbólguvæntinga fyrr á árinu sé að ganga til baka. Samkvæmt spá Seðlabankans eru þó horfur á að verðbólga hjaðni lítillega hægar en gert var ráð fyrir í maí. Talið er að hún haldist yfir 4% út árið en verði komin í markmið á seinni hluta næsta árs,” segir í tilkynningunni.