Eigandi Icelandair Hotels mun leggja fyrirtækinu til nýtt hlutafé á komandi vikum. Þetta staðfestir Tryggvi Þór Herbertsson, stjórnarformaður þess. Í ViðskiptaMogganum í dag kemur fram að Icelandair Hotels bókfærðu 4,8 milljarða tap af starfsemi sinni á síðastliðnu ári. Tryggvi Þór staðfestir einnig að fyrri hluti yfirstandandi rekstrarárs hafi verið þungur. Hins vegar hafi lausafjárstaða fyrirtækisins verið í góðu horfi.
Núverandi eigandi hótelkeðjunnar er malasíska fjárfestingarfélagið Berjaya Corporation Berhad og mun eignarhaldið ekki breytast við hlutafjáraukninguna. Nýtt fjármagn mun allt koma úr þeim ranni.