Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skilað til Alþingis skýrslum sem Þorgerður K. Gunnarsdóttir og fleiri alþingismenn óskuðu eftir um annars vegar stöðu lífeyrissjóða í hagkerfinu og hins vegar um lántökur ríkissjóðs á næstu árum.
Már Guðmundsson, hagfræðingur og fyrrverandi seðlabankastjóri (2009-2019), vann skýrsluna um stöðu lífeyrissjóða í hagkerfinu.
Már fjallar meðal annars um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða.
Á árunum 2017-2019 hafi kaup á gjaldeyri numið 7-9% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar af sölu vöru og þjónustu en fallið niður í 5,5% 2020.
Hlutdeild erlendra eigna sjóðanna hafi aukist frá afnámi hafta og hafi verið komin í 34% í lok júní.
„Veiking krónunnar á þessum árum á sér að mestu aðrar skýringar, fyrst og fremst aðlögun eftir mikla styrkingu á árunum áður og áföll í ferðaþjónustu, fyrst fall WOW og síðan kórónuveirukreppan. Tölurnar staðfesta það sem hafði orðið vart við á fyrri tíð að sjóðirnir hafa tilhneigingu til að draga úr erlendum fjárfestingum þegar gengi krónunnar veikist umtalsvert. Vaxandi hlutdeild erlendra eigna lífeyrissjóða þarf því ekki að vera uppskrift á skaðlegan gengisóstöðugleika,“ skrifar Már og bendir á að það sé hlutverk Seðlabankans að vaka yfir fjármálastöðugleika.
Már skrifar að erlend fjárfesting sjóðanna geti stuðlað að áhættudreifingu og þannig haft jákvæð þjóðhagsleg áhrif. Hún sé hins vegar engin allsherjarlausn og henni geti fylgt áhætta, þar með talið gjaldmiðlaáhætta fyrir sjóðfélaga.
Færir Már rök fyrir nauðsyn þess að þróað verði líkan um „flókið samspil lífeyrissjóðanna og þjóðhagslegra þátta“. „Hér með er því sett fram sú ábending að slíkt líkan verði smíðað í samvinnu stjórnvalda og Landssamtaka lífeyrissjóða og það verði síðan notað af báðum aðilum sem hjálpartæki við stefnumótun,“ skrifar Már jafnframt.