Stjórnendur iðnfyrirtækja vilja að stjórnvöld beiti sér fyrir stöðugra, hagkvæmara og skilvirkara starfsumhverfi með markvissum aðgerðum til að styrkja framboðshlið hagkerfisins svo hægt verði að efla verðmætasköpun og fjölga störfum.
Þetta sýna niðurstöður könnunar sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins meðal stjórnenda íslenskra iðnfyrirtækja. Úr könnuninni má lesa að stöðugleiki, hagkvæmni og skilvirkni séu hornsteinar góðs samkeppnishæfs starfsumhverfis.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að könnunin sé innlegg í kosningafund SI sem fram fer í Hörpu í dag kl. 13-15. Þar munu fulltrúar níu flokka mæta og ræða málefni sem tengjast iðnaðinum í víðum skilningi.
Niðurstöður könnunarinnar sýna meðal annars að 98% stjórnenda iðnfyrirtækja vilja að næsta ríkisstjórn leggi mikla áherslu á stöðugleika í starfsumhverfi fyrirtækja, 89% segja það skipta miklu máli fyrir rekstur þeirra fyrirtækja að næsta ríkisstjórn lækki tryggingagjaldið og 83% að miklu máli skipti að einfalda laga- og reglugerðarumhverfi fyrirtækja.