Borgin setur tíu milljarða í þróun stafrænna innviða

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar hefur ráðið rúmlega 40 sérfræðinga í ár vegna innleiðingar á stafrænni þjónustu. Alls er áformað að ráða rúmlega 60 manns í þessar stöður í ár.

Guðfinna Eyrún Ingjaldsdóttir, mannauðsstjóri þjónustu- og nýsköpunarsviðs, segir starfsfólkið munu starfa á öllum skrifstofum sviðsins. En á sviðinu eru skrifstofurnar upplýsingatækniþjónusta, stafræn Reykjavík, þjónustuhönnun og umbreyting, skjalastýring, gagnaþjónusta, borgarskjalasafn og loks skrifstofa sviðsstjóra sem vinna að sögn Guðfinnu sameiginlega að stafrænni vegferð borgarinnar.

Miðað við árin 2021 til 2023

Reykjavíkurborg hafi tekið frá fjárheimildir til sviðsins sem nema 10,3 milljörðum til þessa verkefnis á árunum 2021, 2022 og 2023.

„Við höfum ráðið töluvert marga sérfræðinga á þessu ári. Við erum með 14 starfsheiti í ráðningarferli í dag og erum að auglýsa fleiri stöður þessa dagana. Störfin sem eru nú í ráðningarferli eru ýmis sérfræðistörf og stjórnendastörf í upplýsingatækni, verkefnastjórn, vörustjórn og þjónustuhönnun. Núna erum við líka að auglýsa eftir fólki til að taka þátt í gríðarlega spennandi alþjóðlegu verkefni sem kemur til vegna styrks sem við fengum frá Bloomberg [e. Bloomberg Philanthropies] hinn 29. júní til að koma á fót nýsköpunarteymum, en við erum ein sex borga í heiminum sem fengu slíkan styrk. Markmiðið er að hraða stafrænni umbreytingu í borginni til að bæta líf borgarbúa. Það er mjög spennandi verkefni.

Við erum stödd á gríðarlega spennandi tíma og erum þeirrar gæfu njótandi að fá margar góðar umsóknir og við erum að ráða inn mjög öflugt og hæfileikaríkt fólk sem brennur fyrir að breyta heiminum,“ segir Guðfinna Eyrún.

Sem áður segir hefur borgin eyrnamerkt rúma 10 milljarða á fjárfestingaráætlun í verkefnið á þremur árum. Að sögn Guðfinnu Eyrúnar er innleiðing stafrænnar þjónustu í kerfum borgarinnar umfangsmikið verkefni. Það bíði enda alls kyns verkefni úrlausnar hjá borginni.

Þjónustuferlar endurhannaðir

„Við erum með stafræna leiðtoga á hverju sviði borgarinnar fyrir sig sem hafa það hlutverk að styðja við sviðin í stafrænni vegferð við að móta stafræna umbreytingu síns sviðs en það snýst um að skoða alla þjónustuferla og hanna þá upp á nýtt út frá þörfum notenda. Það eru nú þegar verkefni í gangi sem búið er að móta og margt í pípunum en fjármögnunin er til þriggja ára þannig að þetta er gríðarlega spennandi tími. Hugmyndin er að taka risaskref í stafrænni umbreytingu og þjónustubætingu á þremur árum og við höfum fulla trú á því með þennan mannauð sem er á sviðinu, en okkar bíður sem áður segir fjöldi alls konar verkefna,“ segir Guðfinna Eyrún.

Aðstoðin orðin stafræn

Spurð hvernig þetta muni birtast borgurunum nefnir hún til dæmis að hjá velferðarsviði borgarinnar sé búið að gera fjárhagsaðstoðina stafræna og þar séu önnur stór verkefni langt komin sem lúta að því hvernig sviðið þjónustar notendur sína.

„Það var fyrsta stafræna verkefnið sem var gríðarlega flott. Síðan eru öll sviðin með sinn lista af verkefnum sem þau vilja vinna og er verkefnaráð hjá okkur að vinna hugmyndirnar áfram og mynda teymi í kringum hvert og eitt verkefni. Markmiðið er að árið 2023 verði borgin á allt öðrum stað hvað varðar stafræna þjónustu og öll stafrænu kerfin farin að vinna vel saman. Sú umbreyting felur í sér margvíslegar umbætur. Til dæmis græn skref með því að spara sporin, pappír og tæki, flýta og einfalda afgreiðslu og auka öryggi í vinnslu gagna. Þetta er allt hugsað fyrir þjónustuþega og þjónustuveitendur en er ekki síður tæki fyrir borgina til að nýta mannauð sinn á annan hátt og skilvirkari sem mun skila sér í betri störfum fyrir starfsmenn og rekstrarhagkvæmni fyrir borgina. Þannig að allir geti nýtt sér þjónustu þegar og þannig sem þeim hentar og allir hafi jafnt aðgengi að öllum upplýsingum og öllum kerfum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK