Starfsmönnum Íslandsbanka fækkar um 24 í september en um rétt um helmingurinn eru beinar uppsagnir að sögn Björns Bergs Gunnarssonar, sem er starfandi samskiptastjóri bankans. Einnig hefur verið samið um snemmbúin starfslok.
Aðspurður segir Björn að aðgerðirnar nái nokkuð þvert yfir bankann. „Þetta er bæði í útibúum, í höfuðstöðvum, í bakvinnslu og framlínu. Þetta er nokkuð almennt og er í rauninni áframhald á hagræðingaraðgerðum sem hafa verið á undanförnum árum,“ segir hann. Vísir greindi fyrst frá.
Ríflega 700 manns starfa nú hjá bankanum, sem er um helmingur þess fjölda sem starfaði hjá bankanum fyrir um áratug.
Spurður hvort frekari hagræðingaraðgerðir séu fram undan á þessu ári, segir Björn að ekkert slíkt liggi fyrir.
„Eins og hefur sést á undanförnum mánuðum og misserum þá hefur starfsfólki verið að fækka. Og það er áfram eins og áður verið að líta til einhverra möguleika í hagræðingu. En það er ekkert sem liggur fyrir umfram þetta,“ segir Björn í samtali við mbl.is.