Fjárfestar víða um heim losuðu mikinn fjölda hlutabréfa í dag af ótta við að ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Kína muni með gjörðum sínum hamla endurreisn heimsefnahagsins.
Yfirvöld í Kína hafa hikað við að koma fasteignaþróunarfyrirtækinu Evergrande til bjargar, en eindagur 80 milljóna dala vaxtagreiðslu er fram undan hjá fyrirtækinu sem er stórskuldsett. Fjárfestar víða um heim telja að yfirvöld í Peking gætu nú horfið frá þeirri venju sinni að fella niður skuldir stórra fyrirtækja í landinu.
Í Bandaríkjunum aftur á móti óttast fjárfestar að yfirvöld þar í landi munu á næstunni skera niður í stórum kaupum á opinberum skuldabréfum sem hafa undanfarið ýtt undir hækkun á hlutabréfaverði í faraldrinum.
S&P 500, algengasti mælikvarðinn á bandarískum hlutabréfamarkaði, lækkaði um alls 1,7% í dag. Verð á bréfum í fyrirtækjunum 500 hefur ekki verið lægra síðan í maí, að því er segir í umfjöllun New York Times. Niðursveiflan hafði enn meiri áhrif í Kína þar sem verð á hlutabréfum í langflestum fasteignafyrirtækjum lækkaði töluvert.