Ekkert lát á hækkun íbúðaverðs

Fella- og Hólahverfi í Breiðholti í Reykjavík.
Fella- og Hólahverfi í Breiðholti í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúðaverð hækkaði um 1,6% milli mánaða í ágúst sem er talsvert meiri hækkun en á fyrri sumarmánuðum. Hækkanir eru komnar fram úr hækkun undirliggjandi þátta og því ósjálfbærar til lengri tíma. Áhrif vaxtahækkana eiga enn eftir að koma fram, að því er segir í Hagsjá Landsbankans. 

Þá segir, að samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hafi íbúðaverð hækkað á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 1,6% milli júlí og ágúst. Fjölbýli hækkaði um 1,5% og sérbýli um 2,1%. Vegin árshækkun mælist nú 16,4% og hækkar um heilt prósentustig frá fyrri mánuði. Árshækkun sérbýlis mælist 20,4% og fjölbýlis 15%.

Enn er staðan slík að eftirspurn virðist hlutfallslega meira eftir sérbýli en fjölbýli, að því er segir í Hagsjánni.

„Tölur júlímánaðar bentu til þess að mögulega væri íbúðamarkaðurinn farinn að róast þar sem hækkunin mældist einungis 0,7% milli mánaða, en það var minnsta hækkunin sem hafði mælst síðan í febrúar. Annað hefur svo komið á daginn þar sem nýjustu tölur benda til þess að enn sé talsverð spenna á íbúðamarkaði,“ segir ennfremur. 

Hækkanir mögulega orðnar meiri en kaupendur ráði við

Þá segir, að almennt verðlag án húsnæðiskostnaðar hækkaði um 0,4% milli mánaða í ágúst og hækkaði raunverð íbúða því um 1,2%. 12 mánaða hækkun raunverðs mælist nú 12,7% og hefur ekki verið meiri síðan í janúar 2018. Frá því í apríl hefur árshækkun raunverðs mælst ofar sambærilegri hækkun á kaupmætti launa. Slíkt gefur til kynna að hækkanir íbúðaverðs séu mögulega orðnar meiri en kaupendahópurinn ræður við, og því ekki sjálfbærar til lengri tíma, að því er segir í Hagsjá bankans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK