Fyrirtækið Geislatækni hefur verið krafið um 26 milljónir króna í lausnargjald eftir að rússneskir tölvuþrjótar brutust inn í tölvukerfi þeirra aðfaranótt föstudags og stálu gögnum. Nú er unnið að því að ræsa það aftur.
Fyrr í mánuðinum voru gerðar netárásir á fjármálafyrirtæki hérlendis.
Árásirnar á þau voru svokallaðar álagsárásir þar sem mikið álag var sett á kerfi þeirra en í árásinni sem framin var aðfaranótt föstudags á Geislatækni var farið inn í kerfi þeirra og allt dulkóðað. Nú vantar fyrirtækið lykil til að leysa gögnin.
„Einhvern tímann kemst inn einhver vírus sem svo dreifir sér út um allt kerfið og skilur eftir sig rýrnifæla í öllum gögnum þar sem okkur er bent á að hafa samband við ákveðinn aðila,“ segir Hákon Svanþórsson, starfsmaður fyrirtækisins, í samtali við mbl.is.
Hákon segir að nú sé unnið að því að fá gögnin aftur og hefur fyrirtækið fengið til liðs við sig þjónustuaðila og reynslubolta í netárásum sem eru búnir að vera að síðan á föstudag.
„Þetta er þekktur vírus en það er ekki til neinn lykill fyrir þetta og vonandi finnst hann á endanum því það eru aðrir sem að lenda í þessu og þetta er alltaf sami lykillinn.“
„Árásin virkar þannig að hakkararnir senda pósta út um allan heim, síðan er einhver óheppinn sem ýtir á einhvern link og þá er þetta komið inn í kerfi og svo springur þetta á einhverjum fyrirframgefnum tíma,“ segir Hákon.
Spurður hvort líklegt sé að starfsmaður fyrirtækisins hafi fengið póst frá þeim og ýtt á hlekk frá tölvuþrjótunum segir Hákon allt benda til þess.
Hákon segir að fyrirtækið muni ekki greiða lausnargjaldið.
„Ef maður borgar þá fær maður stundum skjölin til baka en það er ekki öruggt.“
Hákon segir að til hafi verið „back up“ af öllu en tölvuþrjótarnir hafi náð að eyða því og segir sérfræðinga þeirra segja þetta vel gerða árás.
Allt bendir til þess að hér séu á ferð atvinnuhakkarar.
„Þeir eru rosalega klárir í þessu og þá er erfitt að halda uppi rosa vörnum. Kannski ætti maður frekar að reikna með því að þetta gerist aftur og eiga þá betri afrit þó svo að þeir geti meira að segja eytt því,“ segir Hákon.
Spurður hvort fyrirtækið þurfi að bæta netöryggi sitt segir Hákon að bæta megi fræðslu til starfsmanna og að skoða þurfi margþætta afritun af öllu en bætir við erfitt sé að verjast atvinnuhökkurum.
„Maður er aldrei öruggur, þeir verða alltaf betri og betri, þetta er bara barátta.“